Páll Harðarson, sem gegnt hefur starfi forstjóra Nasdaq á Íslandi síðan 2011 hefur verið skipaður fjármálastjóri evrópskra markaða hjá Nasdaq (European Markets). Hann mun sitja í framkvæmdastjórn European Markets undir stjórn Björn Sibbern. Undir European Markets heyra allir markaðir Nasdaq í Evrópu og á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Nasdaq.
Páll tekur við hinu nýju starfi þann 1. október næstkomandi. Ef ekki verður búið að ganga frá ráðningu nýs forstjóra Kauphallarinnar fyrir þann tíma mun Magnús Harðarson, aðstoðarforstjóri Kauphallarinnar, brúa bilið á meðan, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Páll tók við starfi rekstrarstjóra og aðstoðarforstjóra Kauphallar Íslands árið 2002 og gegndi því til ársins 2011 þegar hann tók við sem forstjóri Nasdaq á Íslandi. Auk þess hefur Páll verið hluti af framkvæmdastjórn Post Trade hjá Nasdaq, situr í stjórn Nasdaq CSD (verðbréfamiðstöð Nasdaq í Evrópu) sem og stjórnum Nasdaq kauphallanna þriggja í Eystrasaltsríkjunum. Páll er hagfræðingur með doktorsgráðu frá Yale háskóla.