Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu, fyrir utan farþegaflutning milli landa, var nánast óbreytt milli ára í maí og júní 2019 þrátt fyrir mikinn samdrátt í flugi. Veltan dróst saman um 0,2 prósent ef borið er saman tímabilið maí til júní 2018 til sama tímabils á þessu ári. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar.
Breytt hegðun ferðamanna vegna aukins vægis erlendra flugfélaga
Yfir mánuðina maí og júní var velta í farþegaflutning milli landa með flugi 29 prósent lægri en yfir sama tímabili í fyrra. Síðan í júní í fyrra hafa tvö flugfélög hætt starfsemi, Primera Air í október 2018 og WOW air í mars 2019. Þrátt fyrir þessar miklu umsviptingar í flugi til landsins hélst velta í gistiþjónustu í maí og júní svo til óbreytt milli ára sem og velta í veitingarekstri. Samvæmt tölum Hagstofunnar veltu gististaðir og veitingastaðir 35 milljörðum yfir maí og júní á þessu ári.
Í greiningu Arion banka á íslenskri ferðaþjónustu frá því í júlí kemur fram að fall WOW air hafi líklega haft áhrif á hegðun þeirra ferðamanna sem koma til landsins. Samkvæmt könnun Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna dvöldu ferðamenn með WOW air skemur en aðrir ferðamenn og eyddu minna að meðaltali en til dæmis ferðamenn með Icelandair. Þá flutti WOW air hlutfallslega fleiri ferðamenn sem stöldruðu aðeins í skamma stund á landinu án þess að gista.
Í kjölfar gjaldþrots WOW air í mars jókst vægi erlendra flugfélaga í flugframboði landsins en erlend flugfélög fljúga alla jafna sjaldnar í viku til landsins. Sú þróun virðist hafa leitt til þess að hver ferðamaður dvelur lengur og eyðir meiri á meðan hann er hér á landi.
Gistinóttum fækkað lítillega
Í maí síðastliðnum fækkaði heildargistinóttum um rúm 9 prósent á meðan erlendum ferðamönnum fækkaði um 23,6 prósent. Þá dróst heildarfjöldi gistinótta í júní aðeins um 2 prósent í júní og 1 prósent í júlí síðastliðnum.
Samkvæmt greiningu Arion banka dvaldi hver ferðamaður mun lengur hér á landi í sumar en fyrir ári síðan. Ef gistinætur eru teknar saman og deilt niður á fjölda ferðamanna þá má sjá að dvalartími hvers ferðamanns var 18,7 prósent lengri í maí á þessu ári en í fyrra, sem er nálægt sólarhrings lengri dvalartími.
Óvænt gleðitíðindi
Enn fremur hefur eyðsla hvers og eins ferðamanns aukist á milli ára. Samkvæmt greiningu Arion banka ráðstafaði hver ferðamaður 30 prósent fleiri krónum í maí og kortavelta á hvern ferðamann aldrei verið meiri. Þó að ferðamönnum fækkaði um 23,6 prósent þá dróst kortavelta í maí aðeins saman um 13,1 prósent á milli ára.
Í greiningu Arion banka kemur fram að viðbúið var að kortavelta á hvern ferðamenn í krónum talið myndi aukast sökum gengisveikingar krónunnar en hversu mikil aukningin það var hafi verið óvænt gleðitíðindi. „Að því gefnu að þetta sé endanleg niðurstaða um kortanotkun ferðamanna þá verður svo lítill samdráttur í maí og vöxtur í apríl að teljast mikil varnarsigur fyrir íslenska ferðaþjónustu,“ segir í greiningunni.
Virðisaukaskyld velta bílaleiga 10 milljarðar yfir maí og júní
Smávægileg aukning var í virðisaukaskyldri veltu bílaleiga á milli ára og námu þær 10 milljörðum á tímabilinu maí til júní á þessu ári. Velta ferðaskrifstofu og ferðaskipuleggjenda breyttist einnig lítið í heildina eða aðeins um 0,1 prósent á milli ára.
Veltan dróst hins vegar saman um 10,7 prósent hjá ferðaskrifstofum sem selja ferðir erlendis en jókst hjá skrifstofum sem selja ferðir á Íslandi um 2 prósent. Virðisaukaskyld velta ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda voru 20 milljarðar yfir maí og júní