Kostnaður Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ) og dótturfélaga, vegna kaupa á ráðgjafaþjónustu, nam 1,4 milljörðum króna á árunum 2012 til og með fyrrihluta árs 2019. Ekki er getið um hvernig þessi kostnaður skiptist milli sérfræðinga, en tekið er fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins, að rík leynd sé um starfsemi Seðlabanka Íslands samkvæmt lögum.
Birgir lagði ellefu spurningar fyrir Bjarna, er vörðuðu starfsemi ESÍ og dótturfélaga, og þá meðal annars um viðskipti með kröfur í bú fallinna fjármálafyrirtækja.
Meðal þess sem fram kemur í svörum Bjarna er að ESÍ og dótturfélög, hafi í einhverjum tilvikum átt viðskipti með kröfur þar sem aflandsfélög komu við sögu.
„Hefur ESÍ nýtt sér aflandsfélög eða átt í viðskiptum við slík félög? Ef svo er, í hvaða tilgangi og um hvaða félög er að ræða?
ESÍ hefur ekki nýtt sér aflandsfélög í sínum rekstri. Í einhverjum tilfellum hefur ESÍ átt viðskipti/samskipti við slík félög vegna úrvinnslu á kröfum og fullnustueignum í eigu félagsins,“ segir meðal annars í svar ráðherra.
Birgir spurði meðal annars hvernig hefði verið farið með kröfur í bú Sparisjóðabankans, en bankinn féll í fjármálahruninu, meðal annars vegna umfangsmikilla veðlánaviðskipta við Seðlabankann.
„Hvaða heimild hafði ESÍ til að kaupa aðrar kröfur en þær sem lentu í eigu Seðlabanka Íslands eftir hrun bankanna?
ESÍ og dótturfélög þess voru félög um fullnustu eigna. Í því felst að félögin þurftu að ganga að tryggingum, umbreyta þeim og ráðast í ýmsar aðgerðir til varnar hagsmunum sínum. Þetta fól óhjákvæmilega í sér umsýslu og úrvinnslu eigna sem miðaði að því að hámarka virði trygginga og lágmarka tap Seðlabanka Íslands af hruninu. Þá leiðir það beinlínis af heimildum Seðlabanka Íslands til viðskipta, gegn framlögðum tryggingum, sbr. 1. og 2. mgr. 7. gr. laga nr.
36/2001, að bankanum er heimilt að stýra og að endingu koma í verð fullnustueignum/tryggingum sem kunna að falla til bankans. Seðlabanki Íslands þarf ekki sérstakar heimildir til þess að takmarka tjón sitt í tilvikum þar sem hann þarf að koma í verð eignum sem lagðar hafa verið fram til tryggingar í viðskiptum bankans. Skiptir í því sambandi ekki máli hvers eðlis eignin er, enda er grundvallaratriðið hið sama í öllum tilvikum; að löggjafinn hefur gert ráð fyrir slíku fyrst hann veitir bankanum lögbundnar heimildir til útlána gegn tryggingum. Upplýsingar um verð og seljendur einstakra eigna getur Seðlabanki Íslands ekki látið af hendi með vísan til sjónarmiða um þagnarskyldu. Að öðru leyti er vísað til ársreikninga ESÍ,“ segir í svari ráðherra, sem hefur verið birt á vef Alþingis.