Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra telur skynsamlegast að bíða með miklar yfirlýsingar um áform Michele Ballarin um að endurreisa WOW air og hefja að nýju áætlunarflug til og frá Íslandi. Þetta segir hann í samtali við RÚV.
„Ég er svo sem fyrst og fremst glaður yfir því að það er áhugi hjá flugfélögum heims að fljúga til og frá Íslandi. Nú er þetta kannski meira í pípunum og við í ráðuneytinu höfum ekki fengið neinar fregnir af þessu aðrar en þær sem við lesum í fjölmiðlum. Þannig að ég tel nú kannski skynsamlegast að bíða með yfirlýsingar,“ segir hann.
Ráðherrann segir að tryggja verði að farið verði eftir íslenskum reglum og íslenskum kjarasamningum, verði af áformum um endurreisn WOW.
„Eins og hlutirnir eru þá þurfa menn að sækja um rekstraleyfi til Samgöngustofu og þurfa að uppfylla þar allnokkur skilyrði um flugöryggi og allan búnað en líka um rekstrarhæfi. Ég treysti því mjög vel að mitt fólk hjá Samgöngustofu sinni því verkefni af fullum þunga. Ef um verður að ræða íslenskt félag held ég að það sé mjög mikilvægt að um það gildi íslenskir kjarasamningar,“ segir hann við RÚV.
WOW air flýgur fyrsta flugið í október
Fram kom í fréttum í gær að WOW air myndi hefja lágfargjaldaflugrekstur til Bandaríkjanna og Evrópu í næsta mánuði. USAaerospace Associates LLC hefur samið um kaup á eignum úr þrotabúi WOW air. Fyrsta flugið er áformað milli Dulles flugvallar í Washington í Bandaríkjunum og Keflavíkurflugvallar í október.
Stærsti hluthafi USAerospace Associates LLC Michele Roosevelt Edwards, einnig þekkt sem fyrrnefnd Michele Ballarin. Hún hafði áður gert tilraun, og náð samningum um, að kaupa eignir WOW air.
Áætlanir nýrra eigenda að WOW air vörumerkinu gera ráð fyrir vaxandi umsvifum þegar líður á komandi vetur og aukin áhersla verður lögð á þátt vöruflutninga í starfsemi fyrirtækisins.
Kaupverðið óljóst
Kaupverðið á þeim eignum sem USAaerospace Associates LLC kaupa er trúnaðarmál og Ballarin vildi á blaðamannafundi í gær ekki gefa upp hvert það er. Hún sagði hins vegar að fyrirtæki hennar væri mjög fjárhagslega sterkt, að þar væru engar skuldir heldur einungis eigið fé. Það væri því nægilega sterkt til að standa á bakvið WOW air til langframa. Kaupin fara fram í gegnum íslenskt félag.
Höfuðstöðvar WOW air verða á Washington Dulles flugvellinum í Bandaríkjunum en félagið verður með aðstöðu á flugvellinum í Keflavík og með skrifstofu í Reykjavík.
Ballarin sagði þó að ekki lægi fyrir hvar til að mynda skattalegt heimilisfesti WOW air yrði. Fundið yrði út úr því í nánustu framtíð.