Hinn 10. júlí 2019 gerðu Fjármálaeftirlitið og Brim hf. (áður HB Grandi hf.), hér eftir nefndur málsaðili, með sér samkomulag um að ljúka með sátt máli vegna brots á 1. mgr. 122. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Fólst í sáttinni að Brim þurfti að greiða 8,2 milljónir króna í sekt, og viðurkenndi fyrirtækið að hafa brotið gegn 1. mgr. 122. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, með því að hafa ekki birt innherjaupplýsingar eins fljótt og auðið var líkt og áskilið er í tilvitnuðu lagaákvæði.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá FME, sem birt hefur verið á vefsíðu eftirlitsins.
Í tilkynningunni eru málsatvik rakin, en málið tengist því hvernig upplýst var um samning um kaup Brims, þá HB Granda, á öllu hlutafél Ögurvíkur.
Guðmundur Kristjánsson er forstjóri Brims, og stærsti eigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur, sem seldi Ögurvík til Brims. ÚR er jafnframt stærsti eigandi Brims, en eftir kaup á hlut FISK Seafood á hlut í Brimi, sem tilkynnt var um í morgun, fyrir um átta milljarða króna, þá á félagið rúmlega 48 prósent í Brimi.
Í þeirri eignarhlutartölu er þó ekki tekið tillit til hlutafjáraukningar sem samþykkt var á hluthafafundi í Brimi 15. ágúst síðastliðinn þar sem ákveðið var að auka hlutafé um 133 milljónir hluta, 7,3 prósent, og nota það til að kaupa allt hlutafé í sölufélögum í Japan, Hong Kong og á meginlandi Kína, sem og þjónustufélag á Íslandi, frá Útgerðarfélagi Reykjavíkur á 4,4 milljarða króna.
Hinn 7. september 2018 kl. 16:18:43 birti Brim opinberlega tilkynningu þess efnis að hann hefði gert samning um kaup á öllu hlutafé útgerðarfélagsins Ögurvík ehf. Kaup málsaðila á Ögurvík ehf. fólu í sér þrepaskipt ferli sem hófst á vormánuðum 2018.
Þann 29. ágúst 2018 var forstjóra málsaðila falið af stjórn hans að hefja samningaviðræður um kaupin. „Á þeim tímapunkti, að teknu tilliti til heildarmats á þeim upplýsingum sem lágu til grundvallar á þeim tíma og þeirrar tilteknu stöðu sem upp var komin, uppfylltu upplýsingarnar hugtaksskilyrði 120. gr. vvl. um innherjaupplýsingar. Málsaðili birti ekki innherjaupplýsingarnar, né tók ákvörðun um frestun birtingar þeirra, fyrr en 7. september 2018. Málsaðili óskaði eftir því að ljúka málinu með sátt. Lagagrundvöllur Samkvæmt 1. mgr. 122. gr. vvl. ber útgefanda fjármálagerninga, sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, eða verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF), að birta almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu allar þær innherjaupplýsingar sem varða hann eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli. Útgefanda fjármálagerninga er á eigin ábyrgð heimilt að fresta birtingu innherjaupplýsinga og ber honum þá að uppfylla kröfur 4. mgr. 122. gr. vvl. Skal Fjármálaeftirlitinu tilkynnt um frestun á birtingu innherjaupplýsinga jafnóðum og heimild til frestunar er nýtt,“ segir í tilkynningu FME, þar sem fjallað er um málsatvik.
Í tilkynningu FME segir að fyrrnefndum reglum sé ætlað að stuðla að
trausti til markaðarins „með því að tryggja að fjárfestum sé ekki mismunað og að þeim sé tryggður
jafn aðgangur að upplýsingum.“ Sektarfjárhæðin tók ennfremur mið af tímalengd brotsins, að því er segir í tilkynningu FME. „Með hliðsjón af eðli og umfangi brots, atvikum máls að öðru leyti, veltu málsaðila og að teknu tilliti
til þess að málinu er lokið með sátt við upphaf athugunar, er sektarfjárhæð talin hæfilega ákveðin
8.200.000 krónur.
Réttaráhrif
Samkomulag þetta er gert á grundvelli 142. gr. vvl. og reglna nr. 326/2019 um heimild
Fjármálaeftirlitsins til að ljúka máli með sátt.
Samkomulagið er bindandi fyrir málsaðila og Fjármálaeftirlitið þegar báðir aðilar hafa samþykkt
og staðfest efni þess með undirskrift sinni. Við greiðslu sektarfjárhæðar er málinu lokið.
Málsaðili brýtur gegn samkomulaginu ef hann t.d. greiðir ekki umsamda sektarfjárhæð, gaf rangar
upplýsingar um málsatvik eða leyndi upplýsingum sem máli skipta. Verði málsaðili uppvís að því
að brjóta gegn samkomulaginu getur Fjármálaeftirlitið fellt það úr gildi og tekið málið til
meðferðar á ný. Brot gegn samkomulagi um sátt telst jafnframt sjálfstætt brot sem getur varðað
stjórnvaldssekt,“ segir í tilkynningu FME.