Jónína S. Lárusdóttir, sem verið hefur framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Arion banka um árabil, mun láta af störfum hjá bankanum næstkomandi föstudag, 13. september. Ekki er tilgreint í fréttatilkynningu frá bankanum af hverju Jónína er að láta að störfum.
Jónína hefur verið framkvæmdastjóri lögfræðisviðs og setið í framkvæmdastjórn bankans í um níu ár eða frá nóvember 2010.
Umtalsverðar hræringar hafa verið í framkvæmdastjórn Arion banka á þessu ári. Benedikt Gíslason var ráðinn í starf bankastjóra bankans í júnílok og tók við því starfi 1. júlí síðastliðinn. Hann tók við af Höskuldi H. Ólafssyni, sem hafði verið bankastjóri í níu ár. Höskuldur fékk 150 milljóna króna starfslokagreiðslu þegar hann hætti störfum.
Benedikt var varaformaður starfshóps stjórnvalda um afnám fjármagnshafta á árunum 2013 til 2016 en hóf í kjölfar þeirra starfa störf hjá Kaupþingi. Þar sat hann í stjórn á árunum 2016 til 2018. Hann hafði auk þess verið ráðgjafi Kaupþings í málefnum Arion banka og setið í stjórn bankans frá árinu 2018. Benedikt er verkfræðingur frá Háskóla Íslands.
Skömmu síðar var tilkynnt um að Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason hefði verið ráðinn aðstoðarbankastjóri Arion banka og að hann myndi hefja störf með haustinu. Um nýtt hlutverk er að ræða innan bankans.
Ásgeir hefur undanfarin ár starfað sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Kviku banka hf. Hann var meðlimur í framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta árið 2015 og áður starfaði hann hjá MP banka sem yfirlögfræðingur, hjá LOGOS lögmannsþjónustu í Reykjavík og London og hjá Straumi fjárfestingarbanka.