Frjáls fjölmiðlun ehf., sem gefur út DV, dv..is og tengda miðla, tapaði 240 milljónum króna í fyrra. Þetta kemur fram í frétt á dv.is.
Þar er haft eftir Karli Garðarssyni, framkvæmdastjóra félagsins, að ráðist hafi verið í miklar aðhaldsaðgerðir í fyrra sem skili betri afkomu árið 2019. „Árið 2018 var fyrsta heila rekstrarár félagsins og það það tók tíma að ná tökum á rekstrinum og grípa til nauðsynlegra aðgerða.“ Rekstrartekjur samkvæmt fréttinni voru 380 milljónir króna í fyrra. Rekstrarkostnaður hefur því verið um 600 milljónir króna, en tap félagsins fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta var 214 milljónir króna.
Ársreikningi Frjálsrar fjölmiðlunar fyrir árið 2018 hefur ekki verið skilað til ársreikningaskráar.
Ekki upplýst hver láni
Frjáls fjölmiðlun ehf. tapaði 43,6 milljónum króna á þeim tæpu fjórum mánuðum sem félagið var starfandi á árinu 2017. Því hefur félagið tapað 283,6 milljónum króna frá því að það tók við DV og tengdum miðlum haustið 2017.
Eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar er félagið Dalsdalur ehf. Eini skráði eigandi þess er Sigurður G. Guðjónsson lögmaður sem er einnig skráður fyrirsvarsmaður Frjálsrar fjölmiðlunar hjá Fjölmiðlanefnd.
Skuldir félagsins, sem er ein stærsta einkarekna fjölmiðlasamsteypa landsins, voru 542 milljónir króna í lok árs 2017. Þar munaði mest um 425 milljón króna skuld við eigandann, Dalsdal ehf.
Sú skuld, sem virðist vaxtalaus, átti að greiðast til baka á árunum 2018 til 2022, 85 milljónir króna á ári. Ekki kom fram í ársreikningi Dalsdals ehf. fyrir árið 2017 hver lánaði því félagi fjármagn til að lána Frjálsri fjölmiðlun en þar segir að Dalsdalur eigi að greiða þeim aðila alla upphæðina til baka árið 2018, það er í fyrra. Ársreikningur Dalsdals fyrir árið 2018 hefur ekki borist ársreikningaskrá.