Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sagði í setningarræðu sinni á Alþingi í dag, að lýðræðshefðin væri best varin með rökræðu, hlustun og endurmati, en ekki yfirgangi, þótta og skoðanahroka. „En vandinn er bara þessi: Við búum ekki í veröld hinna einföldu lausna, hinna algildu sanninda. Við getum dáðst að Bjarti í Sumarhúsum, þrautseigju hans og frelsisleit. Um leið má samt setja út á þrákelkni hans og eigingirni, skapbresti sem leiddu hörmungar yfir aðra. Þetta er úr skáldskap en raunheimar geyma svipaðan lærdóm um margar hliðar einnar sögu. Við getum þannig dáðst að dugnaði okkar manna í þorskastríðunum en viðurkennt um leið að meira þurfti til að landa sigri, þróun hafréttar sem var okkur í vil og ekki skemmdi fyrir að skipta máli í átökum austurs og vesturs. Nú virðast þeir tímar reyndar runnir upp að land okkar sé að margra mati í þjóðbraut á ný. Þá ríður á að greina milli varkárni og tortryggni, standa fast á sínu en óttast ekki umheiminn,“ sagði Guðni.
Guðni óskaði Alþingismönnum góðs gengist í verkum sínum fyrir land og þjóð, og minnti á að enginn væri stærri en embættið sem þeim hafði verið treyst fyrir. „Enginn er fullkominn, öll erum við breysk, ágætu alþingismenn. Og ekkert okkar er stærra en það embætti sem fólkið í landinu hefur treyst okkur fyrir.