Markaðsvirði Sýnar heldur áfram að falla, en félagið lækkaði um 2,93 prósent í dag í 40 milljóna króna viðskiptum. Markaðsvirði félagsins hefur lækkað 54,5 prósent á einu ári og nemur nú 7,8 milljörðum króna. Eigið fé þess í lok annars ársfjórðungs þessa árs, var 10,8 milljarðar króna.
Ekkert félag í kauphöllinni hækkaði í dag, en vísitala markaðarins lækkaði um 0,56 prósent. Mest var lækkunin á bréfum Kviku og Sýnar, en Kvika lækkaði um 2,36 prósent.
Rekstur Sýnar hefur gengið verr en áætlanir gerðu ráð fyrir á þessu ári, og hefur forstjórinn Heiðar Guðjónsson sagt, að framundan sé betri tíð eftir hagræðingu og stefnumótunarvinnu.
„Fyrri spár stóðust engan veginn. Helstu ástæður eru verðlækkanir og frítilboð á fjarskiptamarkaði auk þess sem kostnaður á fjölmiðlamarkaði var umfram áætlanir,“ sagði Heiðar í yfirlýsingu til kauphallar.
Í vetur mun kostnaðarlækkun fyrirtækisins, eftir hagræðingu og markvissar aðgerðir til að bæta undirliggjandi rekstur, meðal annars með fækkun millistjórnenda, nema um 50 milljónum króna á mánuði.
„Allt fyrirtækið fór í gegnum stefnumótun í júní, með mikilli þátttöku starfsfólks, og niðurstaðan var einróma og skýr. Við höfum því samstilltan hóp sem vinnur nú að sameiginlegum markmiðum. Í framhaldi af stefnumótun og áherslubreytingum voru deildir færðar til í skipuriti og þannig styttast boðleiðir og samstarf verður enn betra,“ sagði Heiðar í yfirlýsingu.