Í yfirlýsingu frá Eflingu stéttarfélagi segir að áform stjórnvalda um að fjármagna vegaframkvæmdir með veggjöldum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, muni færa byrðarnar af fjármögnun samgönguframkvæmda yfir á láglauna- og millitekjufólk.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir í yfirlýsingu að stjórnvöld á Íslandi ættu að horfa til reynslunnar í Frakklandi. „Síðasta vetur logaði franskt samfélag vegna fráleitra hugmynda ríkisstjórnar Emmanuels Macron um skattheimtu á eldsneyti. Sú skattheimta hefði komið sérstaklega illa niður á þeim sem neyðast til að keyra lengri vegalengdir milli vinnu og heimilis,“ segir Viðar.
Eins og greint var frá í vikunni, fyrst í fréttum RÚV, hyggjast stjórnvöld flýta samgönguframkvæmdum með því að innheimta veggjöld á höfuðborgarsvæðinu, og með því freista fjármagna tugmilljarða samgönguframkvæmdir, þar á meðal borgarlínu.
Í yfirlýsingu Eflingar segir að veggjöld komi illa við láglaunafólk, þar sem innheimtan er föst krónutala sem sé hlutfallslega hærri fyrir láglaunafólk en aðra.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að veggjöld muni einnig vinna gegn hagsmunum félagsmanna Eflingar með víðtækari hætti. „Þetta er ömurleg árás á láglaunfólk, fólk sem að til dæmis hefur þurft að flytjast í úthverfi borgarinnar eða jafnvel lengra þar sem það hefur ekki efni á að búa miðsvæðis, en þarf engu að síður að sækja vinnu í borgina. Við höfum líka miklar áhyggjur af því að skattalækkunin sem okkur var lofað síðasta vor verði einfaldlega höfð af fólkinu okkar með þessu lúalega nýfrjálshyggjubragði. Svo er auðvitað líka áhugavert, ef svo má orða það, að einkafyrirtæki eiga að fá að græða á þessu öllu og munu fá að sjá um innheimtuna. En það er auðvitað hin gamla saga og nýja; hin blönku verða blankari svo að hin ríku geti haldið áfram að græða,“ segir Sólveig Anna.
Ennfremur segir í tilkynningu að félagið leggist alfarið gegn þessum hugmyndum. „Vegagjaldakerfið er því bæði óhagkvæmt, dýrt og óréttlátt. Það hlífir hæstu tekjuhópunum og þeim sem aka á fyrirtækjabílum. Efling telur réttlátara og skynsamara að fjármagna bættar samgöngur með því að skattleggja fjármagnstekjur til jafns við skattlagningu launatekna. Einnig mætti taka aftur upp auðlegðarskatt og hækka auðlindagjöld, auk þess að skattleggja hæstu tekjur álíka mikið og tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Þá er nærtækt að leggja komugjöld á erlent ferðafólk til að greiða fyrir hið aukna álag á samgöngukerfið sem ferðaþjónustan fær nú svo til gjaldfrjálst afnot af. Þeir sem styðja vegatolla hafa oft beinan hag af þeirri leið, bæði í að forðast skattheimtu á sjálfa sig og í von um að fá sneið af köku einkavæðingar. Efling leggst alfarið gegn þessum hugmyndum.“