Allflest fyrirtæki og stofnanir á Íslandi hafa brugðist við #MeToo byltingunni með einum eða öðrum hætti, þó eflaust megi gera meira og betur.
Þetta er eitt af því sem fram kemur í grein eftir Dr. Katrínu Ólafsdóttur, lektor við Háskólann í Reykjavík, sem birtist í Vísbendingu í gær, föstudag.
Í greininni fjallar Katrín um svonefnda CRANET-rannsókn, þar sem rannsakað var hvernig fyrirtæki og stofnanir hefðu brugðist við #MeToo byltingunni.
Í CRANET-rannsókninni sem gerð var á haustmánuðum 2019 var meðal annars spurt um viðbrögð fyrirtækja og stofnana við #metoo, að því er segir í greininni.
Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í skýrslunni Mannauðsstjórnun á Íslandi í 15 ár: Cranet rannsóknin í 15 ár. CRANET-rannsóknin er hluti af alþjóðlegu samstarfsverkefni og samstarfsneti CRANET (Cranfield Network on International Human Resource Management) og taka yfir 50 háskólar í jafnmörgum löndum þátt í verkefninu. Rannsóknin er gerð meðal mannauðsstjóra og annarra forsvarsmenn mannauðsmála í fyrirtækjum og stofnunum með 70 eða fleiri starfsmenn. Á Íslandi eru 359 fyrirtæki og stofnanir af þessari stærð og tóku 125 þeirra þátt í rannsókninni.
Samkvæmt jafnréttislögum (Lög nr. 10/2008) ber atvinnurekendum og yfirmönnun stofnana að gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk verði fyrir einelti, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustaðnum. Einnig skal atvinnurekandi bregðast við eins fljótt og kostur er þegar upp koma mál er varða einelti, kynferðislega eða kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustaðnum (Reglugerð nr. 1009/2015).
„Flest fyrirtæki og stofnanir hér á landi hafa brugðist við #metoo-byltingunni með einhverjum hætti eins og sjá má á mynd 1. Algengast er að fyrirtæki og stofnanir hafi mótað sér stefnu um að áreitni og einelti séu ekki liðin, eða 80% þátttakenda. Um 70% fyrirtækja og stofnana svöruðu því til að markvisst sé tekið á málum sem koma upp í kjölfar #metoo-byltingarinnar og 65% segjast leita aðstoðar hjá fagfólki þegar mál koma upp. Ríflega helmingur svarenda (56%) hefur gert könnun meðal starfsmanna og tæplega helmingur þeirra (48%) hefur haldið fræðslufundi eða námskeið um einelti, kynbundna og kynferðislega áreitni,“ segir í grein Katrínar.
Þá segir enn fremur að þegar niðurstöður rannsóknarinnar eru greindar eftir tegundum fyrirtækja, þá virðist sem fyrirtæki í frumvinnslu séu líklegust til að hafa gripið til aðgerða. „Þrátt fyrir það eru þau líklegust til að hafa sett upp ný áminningar- og viðbragðsferli (47%). Stofnanir hins opinbera eru líklegastar til að hafa leitað aðstoðar eða ráðgjafar fagaðila (79%) og haldið fræðslufundi um einelti og áreitni (58%). Aftur á móti eru opinberar stofnanir síst líklegar til að hafa sagt upp starfsfólki sem ekki bætir hegðun sína (15%). Fyrirtæki í verslun og þjónustu eru líklegust til að hafa þróað nýja samskiptastefnu (39%) og virkjað starfsfólk í þeirri vinnu (26%).“