Drónaárás á olíuframleiðslu svæði olíufyrirtækisins Aramco í Sádí-Arabíu stöðvaði framleiðslu sem nemur 5,7 milljónum tunna á dag, sem er um 6 prósent af heildarframleiðslu fyrir heiminn. Olíuverð rauk upp á mörkuðum, eftir að Aramco hafði sent frá sér tilkynningu og greint frá miklum skemmdum á svæðinu, og að ekki væri vitað hversu langan tíma myndi taka að koma framleiðslunni í samt lagt og var fyrir.
Verð á tunnunni af hráolíu hækkaði um rúmlega 11 prósent, og fór í tæplega 68 Bandaríkjadali á tunnuna, en hæst í rúmlega 70 Bandaríkjadali. Fyrirsjáanlegt þykir að olíuverðið haldist nokkuð hátt, þar til búið er að koma framleiðslu Aramco í samt lag. Fyrirtækið er stærsta olíufyrirtæki heimsins, og er með um 10 prósent hlutdeild í olíuframleiðslu.
Uppreisnarmenn Húta í Jemen hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni, og hefur hún verið fordæmd víða um heim, meðal annars af stjórnvöld í Bandaríkjunum.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur heimilað að gengið verði á varabirgðir Bandaríkjanna af olíu vegna ástandsins. Sagði Trump á Twitter að vegna árásanna í Saudi-Arabíu, sem gætu haft áhrif á heimsmarkaðsverðið, hefði hann heimilað að gengið yrði á birgðirnar. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um í hversu miklu magni heimilað verður að notast við birgðirnar.
Aramco seldi olíu fyrir 355,9 milljarða Bandaríkjadala árið 2018, eða sem nemur um tæplega 45 þúsund milljörðum króna.
Í umfjöllun Wall Street Journal segir að greinendur geri ráð fyrir að verð geti hækkað enn frekar, þar til það liggur fyrir hversu lengi framleiðsla Aramco mun liggja niðri.
Fyrir Ísland eru það slæm tíðindi, ef olíuverð hækkar verulega, þar sem slíkt fer út í verðlag og ýtir undir meiri verðbólgu. Hún mælist nú 3,2 prósent en verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5 prósent.