Almenni lífeyrissjóðurinn hefur lækkað verðtryggða breytilega vexti sína aftur, úr 1,77 prósent í 1,64 prósent. Það eru langlægstu vertryggðu vextir sem eru í boði fyrir íslenska lántaka á markaðnum í dag, en Almenni lífeyrissjóðurinn lánar sjóðsfélögum sínum fyrir 70 prósent af kaupverði. Vextir hans eru t.d. 38 prósent lægri en hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna og helmingur þeirra vaxta sem eru í boði hjá Landsbankanum fyrir sömu tegund lána. Landsbankinn er þó sá viðskiptabanki sem býður bestu verðtryggðu vextina.
Verðbólga, sem hefur áhrif á verðbætur sem greiðast af verðtryggðum lánum, er sem stendur 3,2 prósent.
Vaxtabreytingar á breytilegum verðtryggðum lánum hjá Almenna lífeyrissjóðnum, sem býður sjóðsfélögum sínum upp á lán fyrir allt að 70 prósent af kaupverði á húsnæði, eru ákveðnar 15. hvers mánaðar. Þær voru því ákveðnar um helgina. Vextirnir taka mið af meðalávöxtun á skuldabréfaflokki Íbúðarlánasjóðs HFF150434 að viðbættu 0,75 prósent álagi.
Verzlunarmenn ákváðu að breyta um aðferð
Lífeyrissjóður verzlunarmanna, næst stærsti lífeyrissjóður landsins sem hefur verið leiðandi á meðal lífeyrissjóða í endurkomu þeirra á húsnæðislánamarkað, var með sama fyrirkomulag. Þ.e. vextir lána hans voru ákvarðaðir í samræmi við breytingu á ávöxtunarkröfu sama skuldabréfaflokks og hjá Almenna, að viðbættu álagi. Á undanförnum árum hafa viðskipti með þau bréf dregist verulega saman með þeim afleiðingum að ávöxtunarkrafan hefur dregist mikið saman.
Afleiðing þess var sú að vextir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna lækkuðu mjög mikið á skömmum tíma. Í lok maí voru þeir orðnir 2,06 prósent.
Þá ákvað stjórn sjóðsins að breyta því hvernig vextir yrðu ákvarðaðir. Í staðinn fyrir að ávöxtunarkrafa skuldabréfaflokksins myndi stýra vaxtastíginu var ákveðið að stjórn sjóðsins myndu einfaldlega ákveða þá. Þeir voru í kjölfarið hækkaðir í 2,26 prósent og þar eru þeir enn þann dag í dag. Sjóðurinn lánar einnig fyrir 70 prósent af kaupverði, alveg eins og Almenni lífeyrissjóðurinn.
Almenni hélt áfram að lækka vexti
Almenni lífeyrissjóðurinn hefur ekki breytt sinni aðferðarfræði. Í dag eru verðtryggði vextir sem sjóðsfélagar í Lífeyrissjóði verzlunarmanna geta fengið tæplega 38 prósent hærri en vextirnir sem sjóðsfélögum Almenna bjóðast.
Ákvörðun stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hafði áhrif. VR, sem skipar fjóra af átta stjórnarmönnum í sjóðnum, ákvað að skipta þeim öllum út fyrir nýja og bar fyrir sig trúnaðarbrest vegna vaxtahækkunarinnar.
Vextirnir hafa þrátt fyrir það ekki lækkað eftir að ný stjórn tók við störfum og skipti með sér verkum.
Tvisvar sinnum hærri vextir hjá ríkisbankanum
Birta lífeyrissjóður býður upp á næst lægstu breytilegu verðtryggðu vextina, eða 1,97 prósent. Sá sjóður lánar hins vegar einungis fyrir 65 prósent af kaupverði og lán hans því valmöguleiki fyrir afmarkaðri hóp betur settra en hjá sjóðum sem lána hærra hlutfall.
Stapi lífeyrissjóður býður sínum viðskiptavinum upp á 2,06 prósent breytilega verðtryggða vexti en hann lánar meira en flestir lífeyrissjóðir, eða fyrir 75 prósent af kaupverði. Frjálsi lífeyrissjóðurinn lánaðar síðan á 2,15 prósent vöxtum og fyrir 70 prósent kaupverðs og í fimmta sæti á listanum yfir hagstæðustu breytilegu verðtryggðu lánin situr Lífeyrissjóður verzlunarmanna.
Hinir stóru lífeyrissjóðirnir, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (2,3 prósent vextir) og Gildi (2,61 prósent vextir) hafa einnig yfirgefið kapphlaupið um hagstæðustu vextina. Þeir eru, ásamt Lífeyrissjóði verzlunarmanna, langfjölmennustu og fjársterkustu lífeyrissjóðir landsins.
Sá viðskiptabanki sem býður skaplegustu breytilegu verðtryggðu vextina er Landsbankinn, þar sem hægt er að fá 70 prósent lán á 3,25 prósent vöxtum. Það næstum tvisvar sinnum hærri vextir en bjóðast hjá Almenna lífeyrissjóðnum. Vextir bæði Íslandsbanka og Arion banka eru því rúmlega tvisvar sinnum hærri en hjá Almenna.