Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var 629,2 stig í ágúst 2019 (janúar 1994=100) og hækkar um 0,6 prósent á milli mánaða, samkvæmt nýjum tölum Þjóðskrár.
Síðastliðna þrjá mánuði hækkaði vísitalan um 0,8 prósent, síðastliðna 6 mánuði hækkaði hún um 2 prósent og síðastliðna 12 mánuði hækkaði hún um 3,6 prósent.
Sé tekið tillit til verðbólgu, sem nú mælist 3,2 prósent, þá mælist raunverðshækkun 0,4 prósent á ári.
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs.
Íbúðarhúsnæði er skipt í flokka eftir stærð og hvort það telst fjölbýli eða sérbýli. Reiknað er meðalfermetraverð fyrir 9 flokka íbúðarhúsnæðis. Niðurstaðan er vegin með hlutdeild viðkomandi flokks í heildarverðmæti á markaði miðað við undangengna 24 mánuði.
Óhætt er að segja að það hafi breyst nokkuð horfur á fasteignamarkaði að undanförnu. Fasteignaverðshækkun á ári mældist 23,5 prósent vorið 2017, en síðan hefur verulega kólnað á markaðnum, og mælist raunverðshækkun nú lítil sem engin. Spár gera ráð fyrir að fasteignaverð muni ekki hækka mikið á næstu misserum, en verð þó einhver, á bilinu 2 til 3 prósent, á næstu árum.