Skeljungur, sem er skráð í íslensku kauphöllina, hefur keypt allt hlutafé í Basko, sem á fimm 10-11 verslanir og rekur fjórtán verslanir undir merkjum Kvikk sem reknar eru við bensínstöðvar Skeljungs. Þá á Basko veitingastaðinn Bad Boys Burgers & Grill, verslunina Kvosina, auk matvöruverslana í Reykjanesbæ og á Akureyri. Alls 50 prósent eignarhlutur Basko í Eldum Rétt er undanskilinn frá kaupunum.
Samkvæmt tilkynningu er kaupverði 30 milljónir króna auk þess sem yfirteknar verða vaxtaberandi skuldir upp á 300 milljónir króna. Kaupin eru bundin samþykki Samkeppniseftirlitsins og ýmsum öðrum fyrirvörum, meðal annars að upplýsingar frá seljanda um áætlað uppgjör standist.
Árni Pétur Jónsson, sem ráðinn var forstjóri Skeljungs í síðasta mánuði, stýrði áður Basko og átti hlut í fyrirtækinu.
Árni Pétur var forstjóri Teymis á sínum tíma auk þess sem hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri hjá Olís og Högum áður en að varð forstjóri Basko. Hann hefur átt sæti í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja, ýmist sem stjórnarmaður eða stjórnarformaður. Má þar nefna fyrirtæki s.s. Lyfja, Securitas, Skeljungur, Penninn, Borgun og Eldum rétt. Þá hefur Árni Pétur komið að rekstri símafyrirtækisins Kall í Færeyjum og Bónus í Færeyjum.
Árni Pétur hefur áður unnið náið með, og fyrir, félög tengd Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, sem tók sæti í stjórn Skeljungs í maí síðastliðnum. Jón Ásgeir var til að mynda forstjóri og síðar stjórnarformaður Baugs Group, sem átti Haga og var stærsti hluthafinn í Teymi þegar Árni Pétur stýrði því fyrirtæki.
Jón Ásgeir settist í stjórn Skeljungs í krafti þess að 365 miðlar, félag í eigu Ingibjargar Pálmadóttur eiginkonu Jóns Ásgeirs, höfðu keypt upp hluti í félaginu. 365 miðlar eiga nú 4,32 prósent hlut í Skeljungi.
Stærstu hluthafar Skeljungs eru íslenskir lífeyrissjóðir og bankar.