Sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp um refsingar við tálmun eða takmörkun á umgengni. Sambærilegt frumvarp var fyrst lagt fram fyrir nokkrum árum en hlaut ekki afgreiðslu. Þá var það lagt fram að nýju í september á síðasta ári með breytingum en náði ekki fram að ganga. Fyrri tilraunir vöktu hörð viðbrögð og gagnrýndu margir frumvarpið.
Ef frumvarpið verður samþykkt þá varðar það sektum eða fangelsi allt að fimm árum tálmi foreldri hinu foreldrinu eða öðrum sem eiga umgengnisrétt samkvæmt úrskurði, dómi, dómsátt foreldra eða samningi þeirra staðfestum af sýslumanni að neyta umgengnisréttar, eða takmarki hann. Brot gegn ákvæðinu sæti aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru barnaverndar til lögreglu.
Fyrsti flutningsmaður er Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Með honum eru Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason og Páll Magnússon, öll þingmenn Sjálfstæðisflokksins.
Segir í greinargerðinni með frumvarpinu að samkvæmt barnalögum og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga börn rétt á að þekkja og umgangast báða foreldra sína. Í barnalögum sé sérstaklega tekið fram að barn eigi rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá og þegar foreldrar búa ekki saman hvíli sú skylda á báðum að grípa til þeirra ráðstafana sem við verði komið til að tryggja að þessi réttur sé virtur. Jafnframt sé tekið fram að foreldri sem barn býr ekki hjá eigi í senn rétt og beri skylda til að rækja umgengni við barn sitt. Enn fremur komi fram að foreldri sem barn býr hjá sé skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldrið nema hún sé andstæð hag og þörfum barnsins að mati dómara eða lögmælts stjórnvalds. Með umgengni er átt við samveru og önnur samskipti.
Þá segir jafnframt í greinargerðinni að þrátt fyrir að skýrt sé kveðið á um umgengnisskyldur foreldra, svo sem skyldu þess foreldris sem barnið býr hjá til að stuðla að umgengni þess við hitt foreldrið, geti orðið misbrestur á framkvæmd ákvæðisins. Dæmi séu annars vegar um að það foreldri sem barn býr hjá (lögheimilisforeldri) tálmi alfarið eða takmarki verulega að barn umgangist hitt foreldrið (umgengnisforeldri) og hins vegar sé að finna dæmi um að umgengnisforeldri tálmi eða takmarki umgengni barns við lögheimilisforeldri þegar umgengni á að ljúka og foreldrar fari með því gegn úrskurði, dómi, dómsátt eða samningi aðila.
„Úrræði í barnalögum eru þau að sýslumaður getur, að kröfu þess sem rétt á til umgengni, skyldað þann sem fer með forsjá eða umsjá barnsins að láta af tálmunum að viðlögðum dagsektum, sbr. 48. gr. barnalaga. Flutningsmenn telja að þetta úrræði hafi ekki virkað til að tryggja þennan mikilvæga og lögbundna rétt barnsins. Þessi málsmeðferð hjá sýslumanni getur verið bæði tímafrek og kostnaðarsöm.
Tálmi forsjármaður umgengni þrátt fyrir úrskurð um dagsektir og fjárnám getur dómari, að kröfu þess sem rétt á til umgengni við barn, úrskurðað að umgengni verði komið á með aðför í eitt skipti eða að umgengni á vissu tímabili verði komið á með aðfarargerð, sbr. 50. gr. laganna. Flutningsmenn telja að umgengni sem er komið á með aðför komi ekki endilega í veg fyrir áframhaldandi tálmanir og því geti reynt á að fara þurfi oftar en einu sinni í slíkt dómsmál. Slíkur málarekstur er þannig tímafrekur og kostnaðarsamur auk þess að vera mjög íþyngjandi fyrir alla sem að máli koma, ekki síst barnið,“ segir í greinargerðinni.
Hægt er að lesa greinargerðina í heild sinni hér.