Seðlabanki Bandaríkjanna ákvað í dag að lækka stýrivaxtastig í 1,75 til 2 prósent, úr 2,25 til 2 prósent, en vaxtalækkunin var rökstudd með því að óvissa væri nú þó nokkur, meðal annars vegna áhrifa tollastríðs á heimsbúskapinn.
Vaxtaákvarðanir Seðlabanka Bandaríkjanna eru áhrifamestu vaxtaákvarðanir heimsins á fjármálamörkuðum, en yfir 60 prósent af gjaldeyrisforða heimsins er í Bandaríkjadal. Þetta er önnur vaxtalækkunin í röð, á vaxtaákvörðunardegi, en þar á undan hafði Seðlabankinn ekki lækkað vexti í áratug, en vöxtum var haldið við núllið í átta ár, í kjölfar fjármálakreppunnar 2007 til 2009.
Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, tilkynnti um ákvörðunina, og nefndi sérstaklega þætti sem snéru að óvissu í heimsbúskapnum, sem hefðu áhrif á það að ákveðið var lækka vexti.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur þegar tjáð sig og segir að seðlabankann skorti hugrekki, og að Powell sé „hræðilegur” þegar kemur að því að lesa í efnahagsmálin. Hann vildi fá meiri lækkun vaxta.
Jay Powell and the Federal Reserve Fail Again. No “guts,” no sense, no vision! A terrible communicator!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) September 18, 2019
Undanfarinn mánuð hefur Trump verið opinskár með þá skoðun, að Seðlabanki Bandaríkjanna sé ekki að haga sér eins og hann eigi að gera, sem er að lækka vexti miklu meira, helst alveg niður í núll.
Powell sagði að þrátt fyrir óvissu, meðal annars vegna neikvæðra áhrifa tollstríðs Bandaríkjanna og Kína á heimsbúskapinn, þá væri staðan á vinnumarkaði í Bandaríkjunum góð og atvinnuleysi hefði ekki verið að aukast.