Amazon hefur lagt inn pöntun hjá nýsköpunarfyrirtækinu Rivian í Michigan, sem framleiðir rafmagnsbíla og hugbúnað fyrir rafmagnsbíla, upp á 100 þúsund sendibíla. Fyrirtækið hefur náð miklum árangri á skömmum tíma og er Amazon á meðal hluthafa fyrirtækisins, eftir að fyrirtækið lauk fjármögnun fyrir framleiðslu á sendibílum, fyrr á þessu ári.
Amazon, sem er eitt verðmætasta fyrirtækisins heimsins með verðmiða upp á 900 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 112.500 milljörðum króna, hefur nú þegar kynnt stórhuga áform um að gera fyrirtækið umhverfisvænna, á næstu tíu árum, og er liður í því að skipta öllum bílaflota fyrirtækisins hratt yfir í rafmagn.
Stefnt er að því að bílar frá Rivian verði farnir að senda vörur heim til notenda árið 2021.
Jeff Bezos, stofnandi og forstjóri Amazon, segir að fyrirtækið muni ná markmiðum Parísarsamkomulagsins fyrir 2030, og beita sér með öllum ráðum þannig að það verði umhverfisvænna. Í erindi sem hann flutti á fundi fyrirtækisins í gær, sagði hann að enginn mætti skorast undan ábyrgð um að vinna gegn mengun að mannavöldum og hlýnun vegna hennar.
Rivian hefur frá stofnun lagt áherslu að framleiða bíla sem gagnast við vöruflutninga og ferðalög, og er innreið fyrirtækisins á sendibílamarkað hluti af þeirri sýn, að orkuskiptin í bílaiðnaði séu mikilvæg í vöruflutningum og þar þurfi að flýta þróuninni sem mest.
Bílar fyrirtækisins hafa fengið góða dóma í prófunum, og þykja léttar í framleiðslu en margir aðrir rafbílar.