Átta af níu lögreglustjórum í landinu hafa lýst yfir vantrausti á Harald Johannessen ríkislögreglustjóra. Frá þessu er greint á fréttavefnum Vísi en Úlfar Lúðvíksson, formaður Lögreglustjórafélags Íslands, staðfestir þetta í samtali við Vísi. Úlfar er lögreglustjóri á Vesturlandi.
Átta af níu lögreglustjórum lýstu nú rétt í þessu yfir vantrausti á Harald Johannessen ríkislögreglustjóra. Þetta kemur fram í viðtali fréttastofu við Úlfar Lúðvíksson sem er formaður Lögreglustjórafélags Íslands en hann er lögreglustjóri á Vesturlandi. Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, er sá lögreglustjóri sem ekki á aðild að vantraustyfirlýsingunni.
Úlfar segir í viðtali við Vísi að spilin hafi verið lögð á borðið fyrir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra.
Eins og fram hefur komið mun Ríkisendurskoðun gera stjórnsýsluúttekt á málefnum embættis ríkislögreglustjóra. Mikil óánægja hefur verið meðal lögregluembætta með ríkislögreglustjóra, meðal annars í tengslum við bíla- og fatamál, og fleiri atriði. Úlfar segir í viðtali við Vísi að óánægja hafi einnig verið mikil innan sérsveitarinnar.
Haraldur lét hafa eftir sér í viðtali við Morgunblaðið á dögunum að kergja innan lögreglunnar, og óánægja með ríkislögreglustjóra, væri meðal annars vegna þess að hann og embætti ríkislögreglustjóra hefðu verið að taka á spillingarmálum innan lögreglunnar.