Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 18,3 prósent fylgi samkvæmt nýjustu könnun MMR. Það er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur nokkru sinni mælst með í könnunum fyrirtækisins.
Samfylkingin er næst stærsti flokkur landsins með 14,8 prósent fylgi samkvæmt könnuninni og þar á eftir koma Vinstri græn með 12,8 prósent fylgi. Píratar mælast með 12,4 prósent stuðning og Miðflokkurinn tapar fylgi á milli kannana, nú segjast 12 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa hann.
Flokkur fólksins myndi ekki ná inn manni ef kosið væri í dag með 4,0 prósent fylgi og það myndi Sósíalistaflokkur Íslands, sem nýtur stuðnings 2,0 prósent kjósenda, ekki heldur gera.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 43,7 prósent.
Alls var svarfjöldi í könnuninni, sem var framkvæmd 9. til 16. september, 1.045 einstaklingar 18 ára og eldri. Vikmörk miðað við eitt þúsund svarendur geta verið allt að 3,1 prósent í sitt hvora áttina.