Tillaga til þingsályktunar um gjaldfrjálsar krabbameinsmeðferðir hefur verið lögð fram á Alþingi. Ef hún verður samþykkt þá mun heilbrigðisráðherra vera falið að beita sér fyrir því að krabbameinsmeðferðir verði gjaldfrjálsar en tillagan hefur einu sinni áður verið lögð fram.
Fyrsti flutningsmaður er Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins. Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson eru meðflutningsmenn en þeir eru allir í Miðflokknum.
Í greinargerð með tillögunni segir að kostnaður við krabbameinsmeðferð sé mörgum þungur baggi og sé kostnaðarhlutdeild krabbameinssjúklinga í lyfjakostnaði og allri heilbrigðisþjónustu hér á landi há og hækki ár frá ári.
Einstaklingar þurfi oft að leggja út fyrir vörum vegna aukaverkana
„Kostnaðurinn reynist sjúklingum oft mestur í upphafi veikinda, þegar þeir eru ekki farnir að njóta niðurgreiðslu frá hinu opinbera, en það getur tekið marga mánuði, allt eftir því hvað einstaklingurinn hefur áunnið sér í réttindi. Á þeim tíma fá sjúklingarnir engar niðurgreiðslur, hvorki á meðferðum né hjálpartækjum sem þeir kunna að þurfa,“ segir í greinargerðinni.
Þá er tekið fram að afleiðingar krabbameinsmeðferða séu þær að einstaklingar þurfi oft að leggja út fyrir ýmsum vörum vegna aukaverkana, til að mynda kaupum á hárkollum og/eða gerð varanlegra augabrúna vegna hármissis og einnig sé kostnaður við viðtalsmeðferðir sem oft bjóðast fjarri heimabyggð. Kostnaður vegna kaupa á ýmiss konar hjálpartækjum og kostnaður við sjúkraþjálfun geti einnig verið mikill.
Fólk kaupir stundum ekki þá þjónustu sem talin er nauðsynleg
Í greinargerðinni kemur einnig fram að með því að gera meðferðina sjálfa gjaldfrjálsa eigi sjúklingar fjárhagslega auðveldara með kaup á nauðsynlegum aukahlutum og að greiða kostnað við ferðalög, „svo að ekki sé minnst á þá aðstoð sem nauðsynleg er fyrir fjölskyldu viðkomandi.“
Samanlagður kostnaður geti því orðið svo mikill að þess eru dæmi að vegna fjárhags síns taki fólk þá ákvörðun að kaupa ekki þá þjónustu sem talin er nauðsynleg. Ofan á útlagðan kostnað bætist síðan tekjutap sjúklingsins.