Fulltrúar stjórnvalda og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu samkomulag um uppbyggingu samgönguinnviða og almenningssamgangna á svæðinu næstu fimmtán árin í dag.
Samkomulagið var undirritað í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu, en sveitarfélögin sem eiga aðild að samkomulaginu eru Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarness.
Heildarumfang er metið um 120 milljarðar króna, en ríkið mun leggja til 45 milljarða, sveitarfélögin 15 milljarða og svo mun sérstök fjármögnun, og þá veggjöld að miklu leyti, fjármagna afganginn, eða sem nemur um 60 milljörðum.
Samkvæmt því sem kynnt var í dag, verður stofnað nýtt félag í eigu ríkis og sveitarfélaga um verkefnið sem fær Keldnaland að eign frá ríkinu og verður landið selt til að fjármagna framkvæmdirnar.
Gert er ráð fyrir að 52,2 milljarðar fari í stofnvegi, 49,6 milljarðar í innviði Borgarlínu og almenningssamgöngur, 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng og 7,2 milljarðar í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir. Þá verði þegar í stað ráðist í að innleiða stafræna umferðarstýringu á höfuðborgarsvæðinu.
„Samkomulagið felur í sér sameiginlega framtíðarsýn og heildarhugsun fyrir skipulagssvæðið. Markmiðið er að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga,“ segir í tilkynningu stjórnvalda.
Þá kemur einnig fram í tilkynningu stjórnvalda, að nauðsynlegt sé að breyta fjármögnun vegakerfisins. „Vegakerfið á Íslandi hefur verið fjármagnað með bensín- og olíugjöldum. Hlutfall vistvænna ökutækja eykst hratt og segja spár að strax árið 2025 hafi tekjur af bensín- og olíugjöldum lækkað verulega.
Endurskoðun stendur nú yfir á tekjustofnum ríkisins vegna ökutækja og eldsneytis vegna orkuskipta. Hluti þeirrar vinnu verður að breyta gjaldtöku með þeim hætti að í ríkari mæli verði treyst á gjöld af umferð í stað bensín- og olíugjalda. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að félagið, sem stofnað verður um framkvæmdirnar, geti innheimt svonefnd flýti- og umferðargjöld sem yrðu liður í breyttri gjaldtöku ríkisins. Önnur fjármögnun félagsins gæti verið í formi sérstakra ríkisframlaga eða hlutdeild í öðrum tekjustofnum tengdum samgöngum.
Áform eru um að taka upp sértæka gjaldtöku víðar á landinu til að fjármagna stærri samgönguframkvæmdir og rekstur jarðganga. Dæmi um þetta eru tvöföldun Hvalfjarðarganga, Sundabraut, brú yfir Ölfusá, brú yfir Hornafjarðarfljót, nýr vegur yfir Öxi ásamt láglendisvegi um Mýrdal og jarðgöng í gegnum Reynisfjall,“ segir í tilkynningunni.