„Erfitt er að ímynda sér hugmynd sem bæði Karl Marx og Margaret Thatcher hefðu getað sammælst um, sérstaklega hugmynd sem snýst um velferð hins vinnandi manns. Þó virðist útgáfa hlutabréfa fyrirtækja til eigin starfsmanna geta samræmst hugmyndarfræði þeirra beggja og þannig sameinað einn af meginátakapunktum félags-og markaðshyggju. Stuðningur við þessa hugmynd hefur vaxið meðal stjórnmálafólks, fræðimanna og hagsmunasamtaka á undanförnum misserum, en ekki eru allir jafnsannfærðir um ágæti hennar. Hverju myndi hún breyta og hverju bæri að varast við framkvæmd hennar?“
Þetta er meðal þess sem er til umfjöllunar í grein eftir Jónas Atla Gunnarsson, Msc. í hagfræði, í Vísbendingu sem koma til áskrifenda í dag. Í greininni fjallar hann um aðferðir við einkavæðingu, og þá einkum í mikilli einkavæðingarhrinu í Bretlandi. Í henni var meðal annars horft til þess að selja starfsfólki heilu fyrirtækin, fremur en hæstbjóðanda.
Aðferðirnar voru umdeildar, og má segja að þær séu enn mikið hita mál í stjórnmálum.
Stoltir starfsmenn
„Árið 1982, í miðri einkavæðingarhrinu ríkisstjórnar Bretlands, ákvað Margaret Thatcher, þáverandi forsætisráðherra og formaður íhaldsflokksins, að selja ætti eignarhlut ríkisins í Opinbera fraktfélaginu (e. National Freight Corporation). Salan var merkileg fyrir þær sakir að hún fór ekki beint til hæstbjóðanda, heldur var starfsmönnum félagsins fyrst boðið að kaupa hluti í því á lágu verði. Að lokum voru 82 prósent fyrirtækisins í eigu starfsmannanna, ásamt fjölskyldum þeirra og lífeyrissjóðum.
Sölunni var ætlað að skapa hvata meðal starfsmanna til að auka skilvirkni sína í starfi. Sem hluthafar í félaginu myndu þeir fá að njóta ávaxta erfiðis síns og hagnast ef starfsemin gengi vel. Svo virðist sem sú áætlun hafi gengið upp, en á örfáum árum jókst framleiðni fraktfélagsins um 70% og hlutabréf þess margfölduðust í virði (1).
Eftir árangursríka sölu á National Freight Corporation varð hlutabréfaútgáfa til starfsmanna algeng leið til einkavæðingar á ríkisfyrirtækjum á níunda og tíunda áratugnum, bæði í Bretlandi og í Austur-Evrópu eftir fall Sovétríkjanna,“ segir í grein Jónasar Atla.
Þetta er einungist brot af greininni, sem fór til áskrifenda Vísbendingar í morgun, á útgáfudegi. Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.
(1) McDonnell, D. (2012). Democratic Enterprise: Ethical business for the 21st century. Diarmuid McDonnell.