Hlutafé í Frjálsri fjölmiðlun, sem gefur út DV, dv.is og tengda miðla, var aukið um 120 milljónir króna á aðalfundi félagsins sem fór fram 6. september síðastliðinn. Alls hefur inngreitt hlutafé í félagið, frá því að það keypti umrædda fjölmiðla síðla árs 2017, numið 340,5 milljónum króna.
Skráður eigandi að öllu hlutafé í Frjálsri fjölmiðlun er félagið Dalsdalur ehf. Eigandi þess er skráður lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson.
Samkvæmt ársreikningi Frjálsrar fjölmiðlunar fyrir árið 2018 skuldaði félagið tengdum aðilum 505 milljónir króna um síðustu áramót. Hlutafjáraukningin nú er framkvæmd af Dalsdal. Í henni felst að 120 milljónum króna af skuld Frjálsrar fjölmiðlunar við eiganda sinn er breytt í nýtt hlutafé. Í ársreikningi félagsins kemur fram að engin sérstakur gjalddagi virðist vera á skuld þess við Dalsdal og hún ber ekki vexti. Í fyrri ársreikningi hafði komið fram að hún ætti greiðast til baka á árunum 2018-2022, alls 85 milljónir króna á ári.
Mikið tap á skömmum tíma
Frjáls fjölmiðlun hóf starfsemi í september 2017. Félagið keypti þá fjölmiðla Pressusamstæðunnar: DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN. ÍNN var síðar sett í þrot.
Á fyrstu fjórum mánuðum starfseminnar tapaði félagið 43,6 milljónum króna. Á síðasta ári jókst tapið umtalsvert og var um 240 milljónir króna. Samtals tapaði fjölmiðlasamstæðan því 283,6 milljónum króna á 16 mánuðum.
Samkvæmt ársreikningi Frjálsrar fjölmiðlar skuldaði samstæðan 610,2 milljónir króna í lok síðasta árs. Þar af voru langtímaskuldir 506,7 milljónir króna og voru að nánast öllu leyti við eigandann, Dalsdal.
Eina eign Dalsdals er Frjáls fjölmiðlun og skuld þess við félagið.
Ekki er greint frá því hver það er sem fjármagnar Dalsdal í ársreikningnum.