Kristín Þorsteinsdóttir, sem starfað hefur sem aðalritstjóri og útgefandi Fréttablaðsins og tengdra miðla undanfarin ár, hefur látið af störfum hjá miðlinum.
Starfsmönnum var greint frá þessu í tölvupósti frá Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur, stjórnarformanni Torgs, útgefanda Fréttablaðsins, í dag. Þar segir að eftir „einföldun á starfsemi félagsins við sölu á eignum til Sýnar, þá hefur starf útgefanda með því sniði sem var þegar fréttastofa var mun stærri einfaldast. Starf útgefanda hefur því verið lagt niður í núverandi mynd og færast allir rekstrarþættir starfsins til framkvæmdastjóra félagsins Jóhönnu Helgu Viðarsdóttur. Stjórnarformaður Torgs tekur við öðrum þáttum sem tilheyra starfi útgefanda.“
Kristín tjáir sig um starfslokin í stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hún segist hafa unnið sinn síðasta vinnudag, og skrifað sinn síðasta leiðara í Fréttablaðið. Ný stjórn hafi tekið við með nýju fólki og nýjum áherslum.
„Í rúm 5 ár, lengur en nokkur annar, stjórnaði ég fréttastofu 365 sem aðalritstjóri og útgefandi - þá stærstu fréttastofu landsins - og svo Fréttablaðinu eftir að fyrirtækinu var skipt upp, síðustu mánuði hef ég verið útgefandi. Þar áður sat ég í stjórn 365. Flestar kennitölur miðlanna, sem ég stjórnaði vitna um góðan árangur. Fréttir Stöðvar 2 náðu að velgja keppinautnum undir uggum - oft vorum við með meira áhorf en RUV, visir.is komst í fyrsta skipti yfir mbl.is undir minni stjórn, við gerðum frábæra hluti með nýjum áherslum og útliti Fréttablaðsins. Við breyttum skipuriti fréttastofunnar og gerðum hlut kvenna meiri en nokkru sinni. Um tíma voru flestir yfirmenn konur og stundum voru vaktirnar eingöngu skipaðar konum.
Þetta voru dýrðlegir dagar.
Auðvitað skiptust á skin og skúrir. Við þurftum að velta hverri einustu krónu, enda höfðum við úr miklu minni peningum að spila en keppinautarnir. Reglulega var farið í sparnaðaraðgerðir. Lífið var ekki alltaf auðvelt.
En ekkert af þessu hefði tekist án ykkar. Ég var svo heppin að hafa frábært starfsfólk mér við hlið, fólk sem hefur verið tilbúið að leggja meira á sig, en hægt hefur verið að ætlast til. Fyrir það vil ég þakka ykkur af öllu hjarta.
En nú skilur leiðir. Allt tekur enda. Vonandi tekur eitthvað nýtt og skemmtilegt við. Nóg er starfsorkan.“
Kæru vinir og samstarfsmenn. Ég hef unnið minn síðasta dag og skrifað minn síðasta leiðara í Fréttablaðið. Ný stjórn...
Posted by Kristin Thorsteinsdóttir on Friday, September 27, 2019
Ólöf Skaftadóttir, dóttir Kristínar, er annar ritstjóri Fréttablaðsins. Davíð Stefánsson var ráðinn við hlið hennar í lok maí síðastliðins en nokkrum dögum eftir þá ráðningu var greint frá því að fjárfestirinn Helgi Magnússon hefði keypt helmingshlut í útgáfufélagi Fréttablaðsins af Ingibjörgu, sem á enn hinn helminginn. Þau tvo, eigendurnir, sitja saman í stjórn Torgs.