Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að þegar samkomulag samkomulag um uppbyggingu samgönguinnviða og almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu sé skoðað sé augljóst að aðrir fjármögnunarmöguleikar en veggjöld séu til staðar. „Ég hef nefnt dæmi um fjarmögnunarleið sem ríkið getur augljóslega sótt í sem er að losa um eignarhald á fjármálafyrirtækjum og þannig aukið getu sínu til að fara í stofnvegaframkvæmdir.“ Þetta kemur fram á mbl.is.
Umrætt samkomulag var undirritað við Tjarnargötu í gær en sveitarfélögin sem eiga aðild að samkomulaginu eru Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarness. Heildarumfang er metið um 120 milljarðar króna, en ríkið mun leggja til 45 milljarða, sveitarfélögin 15 milljarða og svo mun sérstök fjármögnun, og þá mögulega veggjöld að einhverju leyti, fjármagna afganginn, eða sem nemur um 60 milljörðum.
Nú liggur ljóst fyrir að Bjarni er opinn fyrir því að sækja þá 60 milljarða króna, að minnsta kosti að hluta, með sölu á bönkum.
Bjarni hefur rætt umtalsvert um mögulega bankasölu undanfarið, en ríkið á bæði Landsbankann og Íslandsbanka. Heimild er í fjárlögum til að selja allt hlutafé í Íslandsbanka og allt að 34 prósent hlut í Landsbankanum. Bjarni sagði við RÚV í gær að hann vonaðist til þess að salan á Íslandsbanka gæti hafist á næstu vikum.
Greint var frá því í Markaðnum byrjun mánaðar að í nýlegu minnisblaði Bankasýslunnar væri lagt til að annað hvort ætti að selja að minnsta kosti 25 prósent hlut í Íslandsbanka í hlutafjárútboði og skrá þau bréf tvíhliða á markað, eða að selja allt að öllu hlutafé í bankanum með uppboðsleið þar sem önnur fjármálafyrirtæki eða sjóðir geti gert tilboð í hann. Bankasýslan bíður nú eftir réttu tímasetningunni til að leggja það minnisblað fram opinberlega.
Samanlagt eigið fé bankanna tveggja í dag er um 417 milljarðar króna. Ríkisbankarnir greiddu eigendum sínum 207 milljarða króna í arð á árunum 2013-2018.