Isavia, fyrirtæki í eigu ríkisins sem á og rekur meðal annars Keflavíkurflugvöll, tapaði rúmlega 2,5 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Tap félagsins fyrir skatta og fjármagnsliði var 942 milljónir króna.
Ástæðan fyrir hinu mikla tapi er fyrst og síðast sú að fyrirtækið færði niður kröfu sína á WOW air um tæplega 2,1 milljarð króna. WOW air fór í þrot í lok mars síðastliðins.
Rekstrarafkoma Isavia á fyrri hluta ársins 2018 var jákvæð upp á tæpa 1,6 milljarða króna. Því er um að ræða viðsnúning upp á 4,1 milljarð króna milli ára.
Í tilkynningu frá Isavia segir að þessa breytingu megi „ einkum rekja til aukinnar niðurfærslu viðskiptakrafna upp á 2.054 milljónir króna, neikvæðra gengisáhrifa vegna erlendra lána upp á 1.989 milljónir króna og minnkandi tekna upp á 854 milljónir króna. Þrátt fyrir fækkun ferðamanna, einkum skiptifarþega, varð ekki breyting á mestu álagstímunum á Keflavíkurflugvelli. Þetta setti félaginu þröngar skorður varðandi niðurskurð. Þá þótti félaginu ekki fært annað en að framkvæma reikningshaldslega niðurfærslu á ríflega tveggja milljarða kröfu vegna WOW air.“
Vélin kyrrsetta flogin á brott
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir að afkoman beri þess skýrt merki að WOW air hafi orðið gjaldþrota í mars. Ferðamönnum sem fóru um Keflavíkurflugvöll fyrstu sex mánuði þessa árs hafi fækkað um hátt í 900 þúsund, eða 20,3 prósent samanborið við sama tímabil í fyrra.
Við þetta hafi bæst deilur vegna kyrrsetningar á þotu sem WOW air hafði verið með í rekstri, en Isavia hafði kyrrsett og ætlað sér að nota sem tryggingu fyrir greiðslu skulda félagsins við sig. Sveinbjörn segir að ákvörðun Héraðsdóms Reykjaness um að fresta ekki réttaráhrifum úrskurðar um afhendingu þotunnar hafi komið í veg fyrir að kyrrsetningarmálið færi eðlilega leið í dómskerfinu og gert það að verkum að vélinni umræddu hafi nú verið flogið af landi brott. „Við teljum þá ákvörðun héraðsdómara ámælisverða, en erum að leita leiða til að koma málinu á ný á æðra dómstig.“
WOW skuld sem jókst sífellt
Vandræði WOW air byrjuðu fyrir alvöru á síðasta ári og þá byrjaði skuld flugfélagsins við Isavia að hlaðast upp. Isavia og WOW air gerðu samkomulag um það í lok september 2018, skömmu eftir að skuldabréfaútboði í WOW air hafði verið lokið, hvernig félagið átti að greiða upp skuld sína við Keflavíkurflugvöll. Skuld WOW air við Isavia hafði vaxið hratt mánuðina á undan, og stóð í rúmlega milljarði króna í lok júlí 2018. Þá hafði hún tvöfaldast á rúmum mánuði. Hún endaði í mun hærri upphæð.
Isavia taldi sig geta tryggt að skuldin fengist greidd með vegna þess að ákvæði loftferðalaga ættu að heimila fyrirtækinu að kyrrsetja vél WOW air til að tryggja greiðslu gjalda sem væru gjaldfallinn.
Þegar WOW air fór svo loks í þrot í lok mars var skuld félagsins við Isavia vel yfir tveir milljarðar króna. Vélin sem var kyrrsett fyrir greiðslu þeirrar skuldar, og WOW air hafði haft til umráða, var hins vegar ekki í eigu WOW air heldur hafði félagið leigt hana. Eigandinn var Air Lease Corporation (ALC) og hann hafði engan áhuga á því að borga skuld WOW air til að losa vélina sína.
Deilur vegna þessa rötuðu fyrir Héraðsdóm Reykjanes sem komst hann að þeirri niðurstöðu að ALC þyrfti ekki að greiða allar þær skuldir WOW air gagnvart Isavia sem safnast höfðu upp heldur einungis þær skuldir sem tengdust beint þotunni sem kyrrsett var.
Þetta gerði það að verkum að Isavia þurfti að afskrifa kröfu vegna WOW air sem nam 2,8 milljörðum króna.