Finnur Beck, lögfræðingur HS Orku, hefur verið gerður að forstjóra fyrirtækisins tímabundið eftir að Ásgeir Margeirsson ákvað að flýta starfslokum sínum og láta af störfum í gær. Í frétt á vef HS Orku segir að stjórn fyrirtækisins hafi falið Finni að stýra fyrirtækinu þar til nýr forstjóri verður ráðinn, en staðan var auglýst til umsóknar fyrr í þessum mánuði. Ráðningarferli stendur yfir og búist er við að því ljúki á allra næstu vikum.
Finnur hefur starfað sem aðallögfræðingur HS Orku frá árinu 2015. Hann útskrifaðist með ML gráðu úr lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010 en hann er einnig með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Finnur var um tíma einn eigenda Landslaga lögmannstofu og starfaði á árum áður sem fréttamaður hjá RÚV.
Greint var frá því í lok ágúst að Ásgeir, sem verið hafði forstjóri HS Orku í sex ár, hefði komist að samkomulagi um starfslok við stjórn félagsins. Staða forstjóra yrði auglýst en Ásgeir mun gegna henni þangað til að nýr forstjóri tæki við. Ásgeir var ráðinn forstjóri í tíð fyrri meirihlutaeigenda, en miklar breytingar hafa orðið á eigendahópi HS Orku á síðustu mánuðum. Auk forstjóraskiptanna hafa stjórnarmenn sagt af sér og samkvæmt heimildum Kjarnans gengu fyrrverandi stjórnendur og hluti stjórnarmanna ekki í takt við það sem nýir eigendur, breska sjóðsstýringarfyrirtækið Ancala Partners, vilja leggja áherslu á innan HS Orku.
Lífeyrissjóðir keyptu og Bretar komu inn
Jarðvarmi slhf, félag í eigu 14 íslenska lífeyrissjóð, keypti í maí hlut Innergex í HS Orku á 299,9 milljónir dali, eða 37,3 milljarða króna á núvirði.
Innergex seldi þar með sænska félagið Magma Sweden til Jarðvarma en Magma átti 53,9 prósent hlut í félaginu. Með þessu varð Jarðvarmi eigandi allra hluta í HS Orku, eina íslenska orkufyrirtækinu sem er í einkaeigu eftir að hafa gengið inn í sölu á hlut fjárfestingarsjóðsins ORK fyrr á þessu ári. Samanlagt greiddi Jarðvarmi 47 milljarða króna fyrir hlutina, en þeir nema 66,6 prósent af útgefnu hlutafé í HS Orku. Jarðvarmi var að nýta kauprétt sinn á hlutum í HS Orku en félagið átti áður 33,4 prósent hlut.
Í kjölfarið seldi Jarðvarmi síðan helming hlutafjár í HS orku til breska sjóðsstýringarfyrirtækisins Ancala Partners, sem sérhæfir sig í innviðafjárfestingum í Evrópu og er að stóru leyti fjármagnað af breskum lífeyrissjóðum. Áður en að það var gert tók Jarðvarmi þó 30 prósent hlut HS Orku í Bláa lóninu út úr orkufyrirtæki og seldi til nýs félags í eigu íslenskra lífeyrissjóða, Blávarma slhf., á 15 milljarða króna. Miðað við það verð er heildarvirði Bláa lónsins 50 milljarðar króna.