Eftir árlegt mat Fjármálaeftirlitsins (FME) á áhættuþætti í starfsemi Arion banka mun bankinn þurfa að viðhalda hærri viðbótareiginfjárkröfu en fyrra mat eftirlitsins gerði ráð fyrir.
Þetta kemur fram í tilkynningu Arion banka til kauphallarinnar.
„Fjármálaeftirlitið (FME) leggur árlega mat á áhættuþætti í starfsemi kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja í könnunar- og matsferli (e. Supervisory Review and Evaluation Process, SREP). Ferlið felur m.a. í sér mat á eiginfjárþörf fjármálafyrirtækja sem leiðir af sér viðbótareiginfjárkröfu undir Stoð II (e. Pillar II).
Niðurstaða þessa árlega ferlis fyrir Arion banka liggur nú fyrir. Bankinn skal viðhalda viðbótareiginfjárkröfu sem nemur 3,1% af áhættugrunni, sem er hækkun um 0,2 prósentustig frá fyrra mati. Heildareiginfjárkrafa bankans, að teknu tilliti til eiginfjárauka, hækkar við það úr 19,8% í 20,0%.
Hækkun sveiflujöfnunarauka skv. ákvörðun FME í febrúar 2019 mun taka gildi fyrir íslenskar fjármálastofnanir í febrúar 2020 og við það hækkar eiginfjárkrafan í 20,3% að öðru óbreyttu,“ segir í tilkynningu Arion banka.
Eigið fé Arion banka var 195,3 milljarðar króna um mitt þetta ár. Heildareignir voru 1.233,4 milljarðar króna og skuldir 1.038 milljarðar.
Eins og greint hefur verið frá, hefur bankinn, undir stjórn Benedikts Gíslasonar bankastjóra, gripið til umfangsmikilla skipulagsbreytingar til að styrkja rekstrargrunn bankans. Fyrir mánaðarmót var 100 starfsmönnum sagt upp störfum, þar af 80 í höfuðstöðvum og 20 í útibúum. Þá sagði dótturfélag bankans, Valitor, upp 12 starfsmönnum á sama tíma.
Skipulagsbreytingarnar hafa það að markmiði, að ná kostnaðarhlutfalli, það er hlutfalli rekstrarkostnaðar af tekjum, niður í 50 prósent og arðsemi eigin fjár bankans í 10 prósent.
Markaðsvirði bankans lækkaði um 2,2 prósent í dag og er það nú um 144 milljarðar krónar.