Markaðsvirði Kviku banka hefur lækkað um 15,3 prósent á einum mánuði, og þar af hefur bróðurpartur lækkunarinnar komið fram eftir að greint var frá niðurfærslu á eignum tveggja sjóða í eigu GAMMA, dótturfélags bankans.
Samtals hefur virði bankans lækkað um meira en 2,5 milljarða króna á undanförnum dögum, en markaðsvirði bankans nemur nú 17,5 milljörðum króna. Í gær lækkaði markaðsvirði bankans um 6,25 prósent.
Mikil reiði er í hópi þeirra fjárfesta sem lögðu sjóðunum GAMMA: Novus og GAMMA: Anglia til fjármuni, en búið er að skrifa nær allt eigið fé Novus niður, og hjá Anglia hefur virðið verið lækkað um meira en 60 prósent.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er vilji til þess hjá nær öllum fjárfestum í sjóðunum, að láta rannsaka ítarlega hvað fór úrskeiðis og velta við hverjum steini, til að fá fram glögga mynd af því sem gerst hefur.
Kjarninn greindi frá því síðdegis á mánudag að samkvæmt hálfsársuppgjör Novus-sjóðsins í fyrra hafi eigið fé hans verið 4,8 milljarðar króna. Um síðustu áramót var það sagt 4,4 milljarðar króna. Í einblöðungi sem sendur var út til hlutdeildarskírteinishafa þennan sama dag og fréttin birtist, kom fram að eigið fé hans væri 42 milljónir króna.
Eigið féð hafði gufað upp og fyrir lá að virði eigna hafði verið stórlega ofmetið. Helsta eign sjóðsins er Upphaf fasteignafélag slhf. sem hefur byggt nokkur hundruð íbúðir á höfuðborgarsvæðinu frá því að sjóðurinn var settur á laggirnar 2013.
Í einblöðungnum var niðurfærslan á eignum Novus útskýrð með því að raunveruleg framvinda tiltekinna verkefna hefði verið ofmetin. „Þá hefur framkvæmdakostnaður verið talsvert yfir áætlunum á árinu. Fyrri matsaðferðir tóku ekki að fullu tillit til fjármagnskostnaðar félagsins auk þess sem hann hækkaði verulega með útgáfu skuldabréfs (UPPH21 0530) í vor. Væntingar um söluverð íbúða og þróunareigna hafa einnig verið endurmetnar.“
Anglia sjóðurinn var settur á laggirnar til að fjárfesta í fasteignaverkefnum í Bretlandi, en ekki hefur gengið nægilega vel þar.
Máni Atlason, nýr framkvæmdastjóri GAMMA, hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum undanfarna daga, meðal annars í viðtali við Stöð 2 í gærkvöldi, að allar aðgerðir miði að því að endurheimta sem mest og gera stöðuna eins og góða og hægt er.
Tryggingarfélögin VÍS, Sjóvá og TM hafa öll sent frá sér tilkynningar vegna taps, í tengslum við fjárfestingar í sjóðunum, en samanlagt nemur það 610 milljónum hjá félögunum. Þá hafa lífeyrissjóðir, þar á meðal Festa og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, tapað umtalsvert á niðurfærslum eigna sjóðanna tveggja, og hafa forsvarsmenn þeirra óskað eftir ítarlegri skýringum á stöðu sjóðanna.
Í tilkynningu sem birtist á vef GAMMA í gær, kemur fram að nú sé unnið að endurskipulagningu á eignasöfnum með það í huga að endurheimta eignir.
„Við mat á stöðu GAMMA: Novus kom í ljós að eigið fé Upphafs fasteignafélags, sem er í eigu sjóðsins, var verulega ofmetið. Fyrir liggur að kostnaður við framkvæmdir verkefna á vegum félagsins er vanmetinn. Jafnframt var raunframvinda verkefna félagsins ofmetin. Sú staða sem upp er komin kallar á endurskipulagningu á fjárhag félagsins og nýja fjármögnun til að tryggja framgang verkefna og hámarka virði eigna.
Inni í félaginu eru verulegar eignir, þ. á m. 277 íbúðir í byggingu. Með sölu fullbúinna fasteigna verður hægt að ná verulegum endurheimtum af fjármunum kröfuhafa félagsins. Boðaður hefur verið fundur með skuldabréfaeigendum og viðræður hafa átt sér stað við aðra kröfuhafa um björgun félagsins.
Við mat á stöðu GAMMA: Anglia, sem er fagfjárfestasjóður um fjárfestingar í fasteignaþróunarverkefnum í Bretlandi, kom í ljós að verkstjórn eins samstarfsaðila sjóðsins var verulega ábótavant og kostnaður var vanmetinn. Hefur sjóðurinn fært fjárfestingar sem gerðar voru í samstarfi við umræddan aðila niður, auk kostnaðar við undirbúning byggingar fjölbýlishúss sem hafnað var af skipulagsyfirvöldum.
Nýir aðilar hafa verið ráðnir til að hafa umsjón með verkefnum GAMMA: Anglia í Bretlandi. Forgangsverkefni hjá nýju teymi GAMMA: Anglia til næstu mánaða er að hámarka endurheimtur skírteinishafa,“ segir í meðal annars í tilkynningunni.