Umferðin á Hringveginum dróst saman um 1,7 prósent í nýliðnum septembermánuði en lítið hefur verið um samdrátt í umferðinni á undanförnum misserum. Þetta kemur fram í frétt Vegagerðarinnar.
Athygli vekur að mestur samdráttur er á Suðurlandi og mælist hann 8,5 prósent. Samkvæmt Vegagerðinni má þó reikna með að í heild aukist umferðin í ár um 2 til 3 prósent á Hringveginum.
Þetta er í annað sinn sem samdráttur mælist á milli mánaða á þessu ári en áður hafði umferðin dregist saman í marsmánuði sem á sér þó skýringar sem snúa að tímasetningu páska, samkvæmt Vegagerðinni. Við þetta bætist hins vegar minnsta mögulega aukning í ágúst síðastliðnum eða aukning sem einungis nam 0,1 prósent. Umferðin jókst einungis á einu landsvæði eða á Vesturlandi um 1,7 prósent.
„Í ljósi þessa má velta því fyrir sér hvort að hagkerfið sé tekið að kólna, rétt eins og mælingar Seðlabanka og Hagstofu gefa til kynna. Umferðatölurnar styðja þá niðurstöðu því eins og umferðardeild Vegagerðarinnar hefur bent á, í þessum fréttum af umferð, að þá virðist vera mikið samhengi á milli hagvaxtar og umferðartalna. Þegar grannt er skoða er það kannski heldur ekki skrítið heldur í raun eðlilegt að umferðin fari saman við umsvif í samfélaginu og því ekki óvænt að hagsveiflur mælist í umferðartölum,“ segir á vef Vegagerðarinnar.
Þriðja fjölmennasta sumarið frá upphafi
Samkvæmt Ferðamálastofu var nýliðið sumar það þriðja fjölmennasta frá upphafi. Fækkun á milli ára er að mestu bundin við tvo markaði, Norður-Ameríku og Bretland á meðan Mið- og Suður-Evrópa heldur nánast hlut sínum og fjölgun er frá Asíu. Bandaríkjamenn voru eftir sem áður fjölmennastir eða 27,8 prósent af heildarfjölda.
Langflestir heimsóttu Höfuðborgarsvæðið eða 89 prósent, 81 prósent Suðurland, 61 prósent Reykjanes, 57 prósent Vesturland, 42 prósent Norðurland, 38 prósent Austurland og 16 prósent Vestfirði. Þegar svarendur voru hins vegar spurðir að því í hvaða landshluta þeir hefðu gist nefndu 75 prósent Höfuðborgarsvæðið, 55 prósent Suðurland, 36 prósent Vesturland, 34 prósent Norðurland, 28 prósent Austurland, 24 prósent Reykjanes og 10 prósent Vestfirði.
Niðurstöður byggja á brottfarartalningum Ferðamálastofu og Isavia á Keflavíkurflugvelli og könnun Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands sem framkvæmd er meðal ferðamanna á Keflavíkurflugvelli.
Minnsta aukning frá 2012
Frá áramótum hefur umferðin aukist um tæp 3 prósent og er það minnsta aukning miðað við árstíma frá árinu 2012. Mest hefur umferðin aukist um Vesturland en dregist mest saman um Austurland eða 3 prósent.
Það sem af er ári hefur umferðin aukist í öllum vikudögum en þó hlutfallslega mest á sunnudögum eða um 6 prósent. Minnst hefur umferðin aukist á mánu- og laugardögum eða um 1,8 prósent. Að jafnaði er mest ekið á föstudögum en minnst á þriðjudögum.
Í frétt Vegagerðarinnar kemur fram að umferðarlíkan umferðardeildarinnar geri ráð fyrir 4 til 5 prósent vexti í umferðinni í þremur síðustu mánuðum ársins. „Ef hagkerfið er hins vegar að kólna verður það að teljast ólíkleg niðurstaða og gæti aukningin orðið heldur minni en þau 3,3 prósent sem reiknimódel umferðardeildar gerir ráð fyrir. Ef gengið er út frá 0 prósent aukningu í næstu mánuðum verður heildar aukning ársins 2,3 prósent. Þar af leiðandi mætti gera ráð fyrir að aukningin verði á þessu bili í árslok.“