Unnið er að kröfugerð fyrir hönd blaðamanna og annarra rétthafa á Fréttablaðinu til að innheimta hlutdeild þeirra í efni sem Torg ehf., útgefanda Fréttablaðsins, seldi og birtist á Vísi.is. Frá þessu er greint í Mannlífi sem kom út í dag þar sem Aðalheiður Ámundadóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu og trúnaðarmaður starfsmanna, staðfestir að unnið sé að kröfu sem hljóði upp á tugmilljónir króna og að líklegt sé að málið rati fyrir dómstóla.
Samkomulagið sem um ræðir var gert þegar 365 miðlar seldu ljósvakamiðla sína og Vísi.is til Vodafone, sem nú heitir Sýn, síðla árs 2017. Þá var gert viðbótarsamkomulag um að efni úr Fréttablaðinu, sem varð eftir hjá eigendum 365 miðla og var síðar fært inn í félagið Torg ehf., myndi halda áfram að birtast á Vísi.is þangað til í byrjun desember 2019. Fyrir þetta fékk Torg ehf. greitt frá Sýn. Samkvæmt heimildum Kjarnans nemur heildarumfang samningsins 110 milljónum króna.
Skýrt ákvæði í kjarasamningum
Ekki stóð til að þessi upphæð færi annað en til Torgs ehf. Í kjarasamningum blaðamanna kemur hins vegar fram að gera þarf sérstakt samkomulag við þá ef efni þeirra er selt til þriðja aðila. Samkvæmt því ættu þeir sem hafa unnið efni fyrir Fréttablaðið sem selt var til Sýnar að fá helming þeirra upphæðar sem greidd var fyrir efnið á þeim 24 mánuðum sem samkomulagið náði yfir, eða allt að 55 milljónir króna.
Heimildir Kjarnans herma að málið hafi komið upp fyrir rúmu ári síðan og að reynt hafi verið að finna lausn á því síðan. Blaðamannafélag Íslands var látið vita og hefur verið starfsmönnunum sem um ræðir innan handar.
Samningurinn að renna út
Þegar 365 miðlar seldu ljósvakamiðla sína og Vísi.is til félagsins sem nú heitir Sýn var upphaflega gerður samningur um að efni úr Fréttablaðinu myndi birtast áfram á Vísi.is í 44 mánuði. Samkeppniseftirlitið lét aðila málsins hins vegar stytta þann samning vegna þess að það taldi hann vera of langan. Niðurstaðan var að samningurinn myndi gilda frá 1. desember 2017, þegar miðlarnir færðust formlega yfir til Sýnar, og til 1. desember 2019.
Torg ehf. hefur alla tíð síðan verið að byggja upp nýjan fréttavef, Frettabladid.is. Þar birtist líka efni úr Fréttablaðinu, sem er fríblað sem er borð í tug þúsundir húsa á hverjum degi. Því hefur sama efnið birst að morgni á tveimur mismunandi vefum í nálægt tvö ár.
Vöxtur Frettabladid.is hefur verið hraður og undanfarið hefur hann verið auglýstur upp með umfangsmikilli sjónvarpsauglýsingaherferð. Tímasetning þeirrar herferðar er ekki tilviljun, þar sem að það styttist verulega í að Frettabladid.is sitji eitt að efninu úr blaðinu á vefnum.
Sviptingar í sumar
Eigandi Torg ehf. var upphaflega Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir, en hún og eiginmaður hennar Jón Ásgeir Jóhannesson höfðu átt og stýrt 365 miðlum meira og minna á þessari öld í ýmsum formum.
Í sumar seldi Ingibjörg helmingshlut í Torg ehf. til Helga Magnússonar, fjárfestis og fyrrverandi stjórnarformanns Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Hann settist í kjölfarið í stjórn félagsins.
Skömmu áður hafði Davíð Stefánsson, sem hafði aðallega starfað við ráðgjöf og almannatengsl, verið ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins við hlið Ólafar Skaftadóttur.
Fyrir viku síðan var svo greint frá því að Kristín Þorsteinsdóttir, sem starfað hefur sem aðalritstjóri og útgefandi Fréttablaðsins og tengdra miðla undanfarin ár, hefði látið af störfum hjá miðlinum.