Icelandair hefur aldrei flutt fleiri farþega til Íslands og það sem af er ári samanborið við fyrri ár. Þetta kemur fram í flutningatölum fyrir septembermánuð sem félagið birti í Kauphöll í dag.
Á þessu ári hefur Icelandair lagt höfuðáherslu á ferðamannamarkaðinn til Íslands og á móti dregið úr vægi skiptifarþega, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.
Á undanförnum tveimur ársfjórðungum hefur félagið tapað um 90 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 11 milljörðum króna, en kyrrsetningin á 737 Max vélununum, á alþjóðavísu, hefur leitt til mikilla erfiðleika fyrir rekstur félagsins.
Þrátt fyrir þetta hefur félaginu tekist að halda uppi háu þjónustustigi, og reynt hefur fremsta megni að láta erfiðleika ekki bitana á viðskiptavinunum.
„Á háönn sumarsins, eða frá byrjun júní og út september, fjölgaði farþegum til Íslands um 30 prósent. Það sem af er ári hefur Icelandair flutt tæplega 1,5 milljón farþega til Íslands sem er um 27 prósent aukning. Í september fjölgaði farþegum félagsins til Íslands um 18 prósent samanborið við sama tímabil í fyrra og voru þeir yfir 170 þúsund samtals. Einnig fjölgaði farþegum frá Íslandi um 18 prósent og námu þeir alls rúmlega 54 þúsund. Í samræmi við breyttar áherslur á þessu ári fækkaði skiptifarþegum félagsins í september um 17 prósent. Heildarfarþegum félagsins það sem af er ári hefur fjölgað um 9 prósent á milli ára,“ segir í tilkynningu félagsins.
Í henni segir jafnframt að mikill árangur hafi náðst í því að bæta stundvísi í millilandastarfsemi félagsins með styrkingu á innviðum og breyttum vinnuferlum. „Komustundvísi í september var 75% samanborið við 69% í september í fyrra, þrátt fyrir álag og breytingar á leiðakerfinu vegna kyrrsetningar MAX vélanna. Icelandair mun halda áfram að leggja áherslu á ferðamannamarkaðinn til Íslands í vetur. Sveigjanleiki í leiðarkerfi félagsins gerir því kleift að færa tíðni á milli áfangastaða og nýta flugflotann á leiðum þar sem eftirspurn eftir ferðum til Íslands er áætluð mikil,“ segir í tilkynningu.
Eigið fé Icelandair var um 430 milljónir Bandaríkjadala, um mitt þetta ár, eða um 55 milljarðar króna. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að kyrrsetningu Max véla verði aflétt í byrjun næsta árs, en óvissa er um það ennþá hvenær það verður.