Norðmaðurinn Svein Harald Øygard, sem var Seðlabankastjóri á Íslandi frá febrúarlokum 2009 og fram til 20. ágúst sama ár, taldi það á meðal margra brýnna mála sem Ísland stóð frammi fyrir „að elta uppi þá peninga sem helstu eigendur og stjórnendur bankanna kynnu að hafa tekið út úr bönkunum rétt fyrir hrun.“ Frá þessu greinir hann í bók sinni „Í víglínu íslenskra fjármála“ sem kom nýverið út á íslensku.
Í bókinni rekur Øygard efnahagssögu Íslands síðasta rúma áratuginn og hvernig landið breytti djúpri kreppu í efnahagslega velsæld frá sjónarhorni Norðmanns sem dvaldi um tíma í Seðlabanka Íslands.
Þar segir hann að allir íslensku bankarnir hafi fyrir hrun verið sýktir af lánastarfsemi út á vensl. Mörg lán hafi verið veitt fagmannlega og samkvæmt bestu starfsháttum, en sannarlega ekki öll. „Ef banki, ríkið eða þrotabú á að endurheimta slíka fjármuni þarf afskaplega margt að koma til. Gífurleg aðföng þarf til, einbeitni og faglegan stuðning sérfræðinga sem hafa reynslu af því að endurheimta fjármuni. Oft hafa peningarnir verið sendir í skattaskjól í löndum þar sem eignarhald er ógagnsætt með öllu.“
„Þegar ég mætti mótspyrnu lét ég bókfæra álit mitt í fundargerð. Ég er enn þeirrar skoðunar að þrotabúin hefðu átt að gera meira til þess að hafa uppi á sjóðum sem voru líklega í felum.“
Hundruð milljarða á aflandseyjum
Fyrir liggur að það varð stökkbreyting á flæði fjár frá Íslandi til aflands- og lágskattasvæða á fyrsta áratug þessarar aldar, og fjöldi aflandsfélaga í eigu Íslendinga fertugfaldaðist frá árinu 1999 og fram að hruni. Eignir í stýringu íslensku bankanna í Lúxemborg 46-földuðust á sama tímabili.
Uppsafnað umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 til 2015 var, samkvæmt skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum, sem birt var í byrjun janúar 2017, einhvers staðar á bilinu 350 til 810 milljarðar króna, og tekjutap hins opinbera á árunum 2006 til 2014 talið nema um 56 milljörðum króna. Á hverju ári var tapið vegna vantalinna skatta talið vera á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna.
Hvað varð um peninganna sem teknir voru að láni?
Øygard er ekki sá eini sem kallað hefur eftir því að peningar helstu eigenda og stjórnenda íslensku bankanna yrðu eltir uppi.
Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, skrifaði til að mynda um þetta í grein sem hann birti í Vísbendingu í september 2018. Þar sagði Gylfi: „„Sú spurning kom fram hvað hefði orðið um þá þúsundir milljarða sem teknir voru að láni af íslensku bönkunum. Í ljós kom að ekki hefur verið gerð tilraun til þess að finna þessa peninga. Það sem liggur fyrir er að eigendur bankanna lánuðu sjálfum sér og eigin eignarhaldsfélögum óspart en ekki liggur fyrir hversu mikið af lánsfénu tapaðist í erlendum fjárfestingum og hversu miklu var komið undan í skattaskjól.“
Kjarninn mun fjalla ítarlega um bók Øygard á næstu dögum.