Einungis er gerð krafa um að umsækjendur um stöðu varaseðlabankastjóra á sviði fjármálastöðugleika hafi háskólapróf sem nýtist í starfi. Það þýðir að lágmarkskrafan er háskólagráða, BA eða BS próf. Ekki er gerð krafa um meistara- eða doktorspróf.
Þetta kemur fram í auglýsingu stjórnvalda en umsóknarfrestur er til 24. október.
Forsætisráðherra skipar varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands til fimm ára í senn, sbr. 1. mgr. 4. gr. og ákvæði til bráðabirgða I, í lögum nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands, sbr. 7. gr. laga nr. 117/2019. Aðeins er hægt að skipa sama einstakling varaseðlabankastjóra tvisvar sinnum.
„Umsækjendur skulu hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi,“ segir í auglýsingunni.
Þá er einnig tekið fram að horft verði sérstaklega til eftirtalinna hæfnissviða.
• Þekking á helstu viðfangsefnum á sviði fjármálastöðugleika
• Þekking á laga- og regluumhverfi á sviði fjármálastöðugleika
• Færni til að tjá sig skipulega í ræðu og riti bæði á íslensku og ensku
• Reynsla af alþjóðlegu samstarfi
• Reynsla af stjórnun og hæfileikar á því sviði
• Hæfni í mannlegum samskiptum
Fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, mun skipa þriggja manna nefnd er hefur það hlutverk að leggja mat á hæfni umsækjenda um embættið.
Verður einn nefndarmaður skipaður samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu bankaráðs Seðlabanka Íslands og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.
Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri, og Rannveig Sigurðardóttir og Unnur Gunnarsdóttir eru varaseðlabankastjórar á sviði peningastefnu og fjármálaeftirlits. Varaseðlabankastjórinn sem verður skipaður, verður á sviði fjármálastöðugleika, eins og áður segir.