Fylgi Miðflokksins eykst á milli mánaða, samkvæmt nýjustu könnun MMR. Það mælist nú 14,8 prósent en var 12 prósent í síðustu könnun. Fylgi flokksins hefur aldrei mælst meira í könnunum fyrirtækisins.
Sjálfstæðisflokkurinn bætir líka við sig fylgi og er áfram sem áður stærsti flokkur landsins. Fylgi hans mælist nú 19,8 prósent eftir að hafa mælst undir 19 prósentum tvær kannanir í röð.
Sá ríkisstjórnarflokkur sem tapar mestu fylgi á milli mánaða eru Vinstri græn, en fylgi flokks forsætisráðherrans mælist nú 10,3 prósent. Það er 2,5 prósentustigi minna en flokkurinn mældist með fyrir mánuði.
Framsóknarflokkurinn tapar líka fylgi og mælist nú með 10,1 prósent stuðning. Í september sögðust 11,8 prósent ætla að kjósa þann flokk.
Samanlagt tapa ríkisstjórnarflokkarnir því 2,7 prósentustigi milli kannana. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 42 prósent.
Samfylkingin tapar lítillega en mælist nú með 14,1 prósent fylgi. Það er 0,7 prósentustigum minna en flokkurinn mældist með í september. Fylgi Viðreisnar eykst um 0,8 prósentustig og nú segjast 11,0 prósent landsmanna að þeir myndu kjósa flokkinn.
Píratar tapa miklu fylgi milli kannana, alls 3,6 prósentustigum, og njóta einungis stuðnings 8,8 prósent kjósenda ef kosið yrði í dag. Þeir hafa ekki mælst með minna fylgi á þessu kjörtímabili.
Flokkur fólksins bætir hins vegar við sig og mælist nú með 5,6 prósent stuðning, sem þýðir að flokkurinn myndi ná inn manni ef kosið yrði nú.
Könnunin var framkvæmd 30. september - 9. október 2019 og var heildarfjöldi svarenda 2124 einstaklingar, 18 ára og eldri.