Efnahagsreikningur Tryggingarmiðstöðvarinnar (TM) tæplega tvöfaldast við kaup fyrirtækisins á fjármögnunarfyrirtækinu Lykli. Það hefur verið í eigu Klakka, áður Exista, en kaup TM á fyrirtækinu, sem tilkynnt var um til kauphallar í dag, eru háð samþykki hluthafafundar, Samkeppniseftirlitsins og Fjármálaeftirlitsins.
Kaupin eru umfangsmikil, en heildarútlán Lykils nema 32,3 milljörðum króna og heildareignir yfir 40 milljörðum. Til samanburðar námu heildareignir TM 40,8 um mitt þetta ár.
Kaupverðið er 9,25 milljarðar króna, og gera áætlanir ráð fyrir að með tímanum geti hagnaður á hlut aukist um 20 til 30 prósent.
Eigið fé Lykils var 11,7 milljarðar um mitt ár 2019, og því er kaupverðið 0,79 sinnum eigið fé fyrirtækisins. Hlutfall kaupverðs á móti áætluðu eigin fé í árslok 2019 er hins vegar 0,82 miðað við áætlanir um afkomu Lykils á árinu 2019, að því er kemur fram í tilkynningu um kaupin.
Kaupverðið verður greitt með handbæru fé og verður fjármagnað með útgáfu á nýju hlutafé upp á þrjá milljarða og sölu á eignum. TM hefur tryggt sér lánsfjármögnun að fjárhæð allt að þrjá milljarða vegna viðskiptanna til að viðhalda sveigjanleika í stýringu eignasafnsins, eins og það er orðað í tilkynningu.
Kaupin á Lykli eru í samræmi við stefnu TM og eftirleiðis mun starfsemi félagsins skiptast í þrjár jafn mikilvægar stoðir, vátryggingar, fjármögnun og fjárfestingar, að því er segir í tilkynningu. „Tækifæri eru til að bæta arðsemi af grunnrekstri Lykils. TM áætlar að hægt verði að ná fram töluverðum samlegðaráhrifum, bæði í tekjum og kostnaði, fjölga fjármögnunarkostum og ná niður fjármagnskostnaði. Þá er stefnt að því að gera fjármagnsskipan hagkvæmari,“ segir í tilkynningunni.
Með kaupunum verður TM mun stærra félag en t.d. helstu samkeppnisaðilar á tryggingamarkaði, VÍS og Sjóvá. Heildareignir VÍS námu 52 milljörðum um mitt þetta ár og eigið fé rúmlega 15 milljörðum. Hjá Sjóvá eru heildareignir 51,8 milljarðar og eigið fé 15,6 milljarðar.
Með kaupum TM á Lykli verður til félag með heildareignir yfir 80 milljörðum króna, og fjármögnun - þ.e. útlán og leigusamningar - verður stór hluti starfseminnar. Þannig má segja að kaup TM séu hluti af hagræðingu á fjármála- og tryggingarmarkaði, þar sem fyrirtæki stækka og sameinast, til að auka arðsemi.
Markaðsvirði TM er nú 20,1 milljarðar. Markaðsvirði Sjóvár er 20,8 milljarðar og VÍS 19,7 milljarðar. Öll félögin eru skráð á aðallista kauphallar Íslands.