Íslensk stjórnvöld gagnrýna í yfirlýsingu harðlega hernaðaraðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum í Sýrlandi. Þar kemur fram að þau hafi komið þeirri afstöðu sinni á framfæri við tyrknesk yfirvöld með formlegum hætti. „Hernaðaraðgerðirnar samræmast ekki alþjóðalögum og er þess krafist að Tyrkir hætti aðgerðunum þegar í stað og fylgi alþjóðalögum í hvívetna. Hernaður sem beinist að almennum borgurum og veldur manntjóni, eins og fregnir herma, er fordæmdur.“
Megn óánægja er með þessa ákvörðun hjá leiðtogum í Evrópu, sem segja þetta leik að eldi, en Kúrdar hafa leikið mikilvægt hlutverk í því að halda aftur af sveitum Íslamska ríkisins. Óttast er Tyrkir muni reyna að þurrka út Kúrda í Sýrlandi.
Í tilkynningunni segir enn fremur að íslensk stjórnvöld hafi þungar áhyggjur af því að yfirstandandi hernaðaraðgerðir Tyrkja magni enn frekar ófriðarbálið á svæðinu og geri að engu þann árangur sem náðst hefur í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sendi frá sér yfirlýsingu á Twitter í gær þar sem hann lýsti miklum áhyggjum af hernaðaraðgerðum Tyrklandsstjórnar gegn Kúrdum á sýrlensku yfirráðasvæði og kallaði eftir vopnahléi á svæðinu.
Deeply concerned about the #Turkey military offensive against #Kurds in #Syria, which could reinvigorate ISIS and bring further suffering to civilians. Ceasefire is needed in Syria, not further escalation.
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) October 9, 2019
Hernaðaraðgerðirnar hófust í kjölfar stefnubreytingar Bandaríkjahers, í takt við vilja Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að her landsins ætti einfaldlega að fara frá vígvöllum í Sýrlandi og láta öðrum um að stilla þar til friðar.
Auglýsing