Að óbreyttu, með lækkandi vaxtastigi, mun rekstrarumhverfi bankakerfisins verða erfitt og skila sér enn minni arðsemi.
Þetta kemur fram í Fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, þar sem ítarlega er fjallað um rekstur kerfislægt mikilvægu bankanna, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans.
Stýrivextir Seðlabanka Íslands eru nú 3,25 prósent, og hafa farið lækkandi, en verðbólga er 3 prósent.
Samanlagður hagnaður bankanna var 19 milljarðar króna á fyrri helmingi ársins 2019 og minnkaði um fimmtung miðað við sama tímabil á árinu á undan.
Arðsemi eigin fjár nam 6,2 prósent að meðaltali sem er rúmlega 1½ prósentu minni arðsemi en á sama tímabili í fyrra, en lækkunina má nánast eingöngu rekja til minni hagnaðar, segir í Fjármálastöðugleika.
Arðsemi Landsbankans var mest en arðsemi eigin fjár var 9,2 prósent og lækkaði um tæplega prósentu á milli ára. Arðsemi Íslandsbanka var 5,4 prósent og lækkaði um 3 prósentur á milli ára og arðsemi Arion banka var 3,2 prósent og lækkaði um 1,6 prósentur á milli ára. Að sama skapi var arðsemi heildareigna bankanna einnig misjöfn og var arðsemi Landsbankans töluvert meiri en hinna tveggja.
Arðsemi án bankaskatts var um 7,7 prósent, segir í Fjármálastöðugleika.
Einblínt er sérstaklega á þessa þrjá banka sem hafa kerfislægt mikilvægi. Árið 2015 skilgreindi fjármálastöðugleikaráð þrjá stærstu viðskiptabankana sem kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, og er rekstur þeirra greindur sérstaklega á þeim forsendum.
Í Fjármálastöðugleika segir meðal annars: „Hreinar vaxtatekjur nema nú um 70 prósent af heildartekjum bankanna. Hreinar vaxtatekjur myndast annars vegar af fjárhæð vaxtaberandi eigna og skulda og hins vegar af vaxtamun. Í alþjóðlegum samanburði teljast íslensku bankarnir vera með háan vaxtamun á eignum og skuldum. Með lækkandi vaxtastigi verður erfiðara fyrir bankana að miðla breytingum á meginvöxtum Seðlabankans bæði á eigna- og skuldahlið efnahagsreikningsins. Strax nú á vormánuðum voru vextir á óbundnum innlánum í flestum tilfellum rétt fyrir ofan 0%. Það þýðir að þrengt hefur að svigrúmi bankanna til að miðla lækkun meginvaxta á skuldahliðina. Ef meira svigrúm er til að lækka útlánsvexti en innlánsvexti mun lækkun meginvaxta Seðlabankans að óbreyttu þrýsta vaxtamun bankanna niður sem mun draga úr hagnaði og arðsemi þeirra,“ segir í Fjármálastöðugleika.
Sé horft til eiginfjár þá er Landsbankinn stærsti bankinn með 240 milljarða í eigin fé. Íslandsbanki er með 175 milljarða og Arion banki, sem er eini bankinn af þessum þremur kerfislægt mikilvægu í einkaeigu, er með 195 milljarða. Hann er jafnframt eigin bankinn sem skráður er á markað en markaðsvirði hans er nú 139 milljarðar eða sem nemur um 0,71 sinnum eigið fé bankans.