Í nýrri skýrslu hóps alþjóðlegra sérfræðinga á sviði eftirlits með flugstarfsemi, sem settur var saman af beiðni bandarískra flugmálayfirvalda (FAA), er Boeing harðlega gagnrýnt fyrir hönnun á 737 Max vélunum frá Boeing og hvernig staðið var að upplýsingagjöf um tæknilega þætti vélanna.
Þar á meðal er MCAS kerfið svonefnda, sem á að koma í veg fyrir ofris, en spjótin í rannsóknum á tveimur slysum - 29. október í fyrra í Indónesíu og í Eþíópíu 13. mars á þessu ári - hafa beinst að kerfinu.
Samtals létust 346 í slysunum tveimur, en 737 Max vélarnar voru kyrrsettar fljótlega eftir seinna slysið, og hafa þær ekki verið notaðar í farþegarflugi síðan á alþjóðavísu.
Miklir hagsmunir eru undir fyrir Boeing að aflétta kyrrsetningunni, og flugfélögin sem treysta á vélarnar í starfsemi sinni, þar á meðal Icelandair. Félagið gerir ráð fyrir að kyrrsetningunni verði aflétt í byrjun næsta árs, en algjör óvissa ríkir um það.
Greint er frá niðurstöðu skýrslunnar í Seattle Times í dag, en að hluta byggir skýrslan á frumathugun sérfræðinganna skömmu eftir seinna slysið, sem leiddi til kyrrsetningarinnar á alþjóðavísu. Niðurstöður frumathugunar hafa nú verið staðfestar.
Boeing er til rannsóknar vegna Max vélanna, meðal annars af alríkislögreglunni FBI. Rannsóknin beinist meðal annars að því hvernig félagið fékk leyfi fyrir notkun vélanna, og hvort upplýsingagjöfin hafi viljandi verið fölsk. Þá er félagið einnig til rannsóknar af yfirvöldum í Indónesíu og Eþíópíu, vegna slysanna.
International regulator report slams Boeing, FAA over 737 MAX design and approval https://t.co/P6h3HGWiWd via @seattletimes
— Dominic Gates (@dominicgates) October 11, 2019
Efnahagsleg áhrif kyrrsetningar á Max þotunum eru til umfjöllunar í Fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, sem kom út í vikunni. Þar er meðal annars rætt um algjöra óvissu sem ríkir um hvenær henni verður aflétt. Áhrifin hafa verið verulega neikvæð fyrir Icelandair en félagið hefur tapað meira en 11 milljörðum á fyrstu sex mánuðum þessa árs.
„Alþjóðleg kyrrsetning á Boeing MAX-þotum leiddi til þess að sætaframboð Icelandair jókst minna en áætlanir gerðu ráð fyrir. Félagið gerði ráð fyrir níu MAX-þotum í rekstri á árinu og áttu fimm að bætast við á næsta ári. Til að bregðast við kyrrsetningunni leigði félagið fimm þotur yfir háannatímann í sumar. Síðasta leiguvélin yfirgefur flotann nú í lok október. Mikil óvissa ríkir enn um framtíð MAX-þotanna en Icelandair gerir ekki ráð fyrir þeim í rekstur aftur fyrr en á nýju ári. Vetraráætlun Isavia gerir ráð fyrir að sætaframboð dragist saman um 27% á fjórða ársfjórðungi sem er svipaður samdráttur og var á öðrum og þriðja ársfjórðungi ársins. Nokkrir aðilar hafa á undanförnum mánuðum kannað möguleikann á stofnun nýs millilandaflugfélags hér á landi en mikil óvissa ríkir um framgang þeirra mála“ segir í Fjármálstöðugleika.
Markaðsvirði Icelandair er nú tæplega 33 milljarðar, en eigið fé félagsins var um 55 milljarðar um mitt þetta ár.