John Kerry, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og áhrifamaður í bandarískum stjórnmálum í áratugi, segist ekki sammála því mati Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, að það eigi að nýta jarðgasauðlindir á norðurslóðum.
Kerry, sem hlaut heiðursverðlaun Arctic Circle ráðstefnunnar fyrir baráttu sína í umhverfismálum, segir að það sé betra að ýta undir tæknilausnir sem auðveldi orkuskipti. „Nei, við ættum að leita að fleiri lausnum, sjálfbærum og endurnýjanlegum auðlindum og hvetja til þess að tæknilausnir finnist sem ekki feli í sér jarðefnaeldsneyti. Gas er skárri en olía en jarðefnaeldsneyti engu að síður og mengar. Gas er 87 prósent metan og metan er 20 sinnum hættulegra en koltvísýringur,“ sagði Kerry í viðtali við RÚV.
Former U.S Secretary of State, @JohnKerry, got the @_Arctic_Circle Prize 2019 for his engagement for the #Arctic. “Saying something is impossible is not a fact, it’s an opinion. It’s not a declaration, it’s a dare. The fight against climate change is inevitable," he said. pic.twitter.com/s2KYePQ181
— High North News (@HighNorthNews) October 12, 2019
Kerry átti fund með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og sagði fund þeirra hafa verið sérstaklega ánægjulegan. Margt hafi borið á góma, og þar á meðal alþjóðleg barátta gegn mengun af mannavöldum, og hvernig þjóðir heimsins geti lagt lið í því efni. Hann sagðist stoltur af því að hafa fengið verðlaunin á ráðstefnunni frá þjóð sem hefði sett sjálfbærni á oddinn og væri þannig að leiða með góðu fordæmi á alþjóðavísu.