„Bankasýsla ríkisins sem umsýsluaðili eignarhluta íslenska ríkisins í fjármálafyrirtækjum fagnar því framkomnu frumvarpi og telur að það muni vera til hagsbóta fyrir fjármálamarkaðinn, fyrir neytendur sem og íslenska ríkið sem eigandi að eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum.“
Þetta kemur fram í umsögn Bankasýslu ríkisins um frumvarp til laga um lækkun á sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki.
Samkvæmt frumvarpinu lækkar sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki úr 0,376 prósent af skuldum niður 0,145 prósent á fjórum árum.
Í umsögninni, sem birtist á vef Alþingis í dag, kemur fram að það sé til bóta fyrir fjármálamarkaðinn á Íslandi að halda regluverki stöðugu. Þetta sé hagsmunamál fyrir Bankasýsluna, ekki síst þegar kemur að sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum.
Bankasýsla ríkisins er umsýsluaðili 98,2 prósent alls hlutafjár í Landsbankanum hf., 100 prósent hlutafjár í íslandsbanka hf. og 49,5 prósent hlutafjár í Sparisjóði Austurlands hf. fyrir hönd íslenska ríkisins.
„Skv. lögum nr. 155/2012 um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum skal stofnunin annast sölumeðferð eignarhluta fyrir hönd ríkisins, í samræmi við ákvörðun ráðherra að viðhöfðu samráði við tvær fastanefndir Alþingis og Seðlabanka íslands. Bankasýsla ríkisins undirbýr sölu, leitar tilboða í eignarhlut, metur tilboð, hefur umsjón með samningaviðræðum við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð. Meginreglur skv. lögunum við sölumeðferð eru opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni en með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Að mati stofnunarinnar er það mjög mikilvægt, út frá sjónarmiðum umsýslu- og eigandahlutverksins, að opinbert gjaldaumhverfi fjármálafyrirtækja sé stöðugt og fyrirsjáanlegt um töluverðan tíma. Miklar og örar breytingar á skattaumhverfi stuðla ekki að trausti og trúverðugleika fjármálamarkaðarins og geta haft neikvæð áhrif á eftirspurn og markaðsverð, sem íslenska ríkið getur mögulega fengið fyrir eignarhluti sína í fjármálafyrirtækjum, ef og þegar til sölu kemur,“ segir í umsögn Bankasýslunnar.
Forstjóri Bankasýslu ríkisins er Jón Gunnar Jónsson, en stjórnarformaður Lárus Blöndal.