Ramses II ehf., félag í eigu Eyþórs Laxdal Arnalds oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem heldur á hlut hans í útgáfufélagi Morgunblaðsins, skuldar 239 milljónum krónum meira en það á.
Í nýbirtum ársreikningi félagsins kemur fram að alls 20,5 prósent hlutur þess í Þórsmörk, eiganda Árvakurs sem gefur út Morgunblaðið og tengda miðla, hafi verið metinn á 121,5 milljónir króna í lok síðasta árs. Um er að ræða einu eign Ramses II. Sá hlutur var metinn á 187,6 milljónir króna í lok árs 2017 og því lækkaði virði hans um 66,1 milljón króna á síðasta ári.
Félagið skuldaði hins vegar 360,5 milljónir króna vegna kaupanna á einu eigni sinni. Sú skuld er til greiðslu á næsta ári, 2020, samkvæmt ársreikningnum.
Eigið fé Ramses II er því neikvætt um 239 milljónir króna. Fréttablaðið greindi fyrst frá.
Stundin hefur greint frá því að Eyþór hafi keypt hlut sinn í Árvakri með kúluláni sem var upphaflega 325 milljón króna frá félagi í eigu Samherja, sem var seljandi hlutarins. Þar hefur meðal annars komið fram að Eyþór hafi aldrei viljað upplýsa um hvernig hann hafi fjármagnað kaupin á hlutnum og sagt að viðskiptin væru trúnaðarmál.
2,2 milljarða tap frá því að nýir eigendur tóku við
Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, mbl.is og K100, tapaði 415 milljónum króna í fyrra.
Árvakur hefur glímt við mikinn hallarekstur á undanförnum árum og hluthafar þess hafa ítrekað þurft að leggja útgáfunni til fé.
Frá því að nýir eigendur tóku við rekstrinum árið 2009 og fram til loka árs 2018 tapaði félagið um 2,2 milljörðum króna miðað við ofangreinda útreikninga á tapi Árvakurs í fyrra. Tapið eykst umtalsvert á milli ára, en Árvakur tapaði 284 milljónum króna árið 2017.
Kjarninn greindi frá því í febrúar síðastliðnum að hlutafé í Þórsmörk, eiganda Árvakurs, hefði verið aukið um 200 milljónir króna þann 21. janúar 2019. Auk þess var samþykktum félagsins breytt á þann veg að stjórn þess er heimilt að hækka hlutaféð um allt að 400 milljónir króna til viðbótar með útgáfu nýrra hluta. Sú heimild gildir til ársloka 2019.
Alls tóku fimm skráðir hluthafar ekki þátt í hlutafjáraukningunni og minnkaði hlutfallsleg eign þeirra samhliða henni. Á meðal þeirra var áðurnefnt Ramses II, í eigu Eyþórs.
Eignarhlutur Ramses hefur skroppið saman úr 22,87 prósentum í 20,05 prósent.
Flestir minni eigendur Þórsmerkur eru tengdir sjávarútvegsfyrirtækjum.
Færðu niður hlutaféð um milljarð
Frá því að nýir eigendur tóku við Árvakri árið 2009 hafa þeir lagt félaginu til rúmlega 1,6 milljarð króna. Þar af nemur framlagt hlutafé KS um 324 milljónum króna og framlagt hlutafé tveggja félaga sem tengjast Ísfélaginu um 484 milljónum króna. Annað þeirra er félagið Hlynur A en hitt er Ísfélagið sjálft.
Í maí síðastliðnum var ákveðið að lækka hlutafé í Þórsmörk um einn milljarð króna. Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskráar var það gert til jöfnunar á tapi.
Við það lækkaði hlutafé Þórsmerkur úr 1,6 milljarði króna í 606 milljónir króna. Það þýðir að eigendur félagsins hafa afskrifað milljarð af því fjármagni sem þeir settu inn í félagið.
Eignarhald Þórsmerkur, eiganda Árvakurs, er eftirfarandi:
- Ramses II ehf., eigandi Eyþór Laxdal Arnalds, 20,05 prósent
- Íslenskar sjávarafurðir ehf., forsv.m. Sigurjón Rafnsson, 20,00 prósent
- Hlynur A ehf., forsv.maður Guðbjörg Matthíasdóttir, 16,45 prósent
- Ísfélag Vestmannaeyja hf., forsv.maður Stefán Friðriksson, 13,43 prósent
- Legalis sf., forsv.maður Sigurbjörn Magnússon, 12,37 prósent
- Rammi hf., forsv.maður Ólafur Marteinsson, 6,14 prósent
- Þingey ehf., forsv.maður Aðalsteinn Ingólfsson, 3,59 prósent
- Stálskip ehf., forsv.maður Halldór Kristjánsson, 3,08 prósent
- Brekkuhvarf ehf., forsv.maður Ásgeir Bolli Kristinsson, 2,05 prósent
- Fari ehf., forsv.maður Jón Pálmason, 1,54 prósent
- Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf., forsv.maður Einar Valur Kristjánsson, 1,30 prósent