Lífeyrissjóðir landsins lánuðu samtals rúma 6,3 milljarða króna til sjóðsfélaga sinna í ágúst síðastliðnum. Það er lægsta upphæð sem sjóðirnir hafa lánað til þeirra frá því að margir þeirra breyttu lánaskilyrðum sínum, lækkuðu vexti og hækkuðu lánsviðmið haustið 2015. Í ágúst 2016 lánuðu þeir 6,8 milljarða króna, í þeim mánuði ári síðar 10,1 milljarð króna og í fyrra 10,2 milljarða króna. Því drógust lánveitingarnar, að frádregnum upp- og umframgreiðslum saman um tæpa fjóra milljarða króna, eða um þriðjung milli ára.
Þetta kemur fram í nýjum tölum um útlán lífeyrissjóða sem Seðlabanki Íslands birti í síðustu viku. Þar kemur enn fremur fram að verðtryggð útlán voru 3,9 milljarðar króna í síðasta sumarmánuðinum en óverðtryggð lán 2,4 milljarðar króna.
Stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa markvisst verið að reyna að hamla sókn sjóðsfélaga sinna í sjóðsfélagslán undanfarin misseri, meðal annars með því að lækka lánshlutfall. Lífeyrissjóður verzlunarmanna, greindi til dæmis frá því í byrjun október að sjóðurinn hefði breytt lánareglum sínum og lækkað fasta vexti á verðtryggðum lánum. Breytingarnar á lánsréttinum fela í sér að skilyrði fyrir lántöku eru þrengd mjög og hámarksfjárhæð láns er lækkuð um tíu milljónir króna. Þá hefur sjóðurinn ákveðið að hætta að lána nýjum lántakendum verðtryggð lán á breytilegum vöxtum, en þau hafa verið einna hagkvæmustu lánin sem í boði hafa verið á undanförnum árum.
Tvöfaldað hlutdeild sína
Í nýrri skýrslu Greiningar Íslandsbanka um íslenska íbúðamarkaðinn sem kom út í síðustu viku kom fram að íslenskir lántakendur, sem uppfylla skilyrði lífeyrissjóða fyrir lántöku, taka frekar lán hjá þeim, enda geta sjóðirnir boðið miklu betri kjör en t.d. bankar og íbúðalánasjóðir. Það sést á því að lífeyrissjóðir landsins eru nú beinir mótaðilar að 21 prósent af skuldum heimilanna og hlutfallið hefur aldrei verið hærra. Enn fremur hefur það tvöfaldast á mjög skömmum tíma, en árið 2016 var það tíu prósent.
Frá því að lífeyrissjóðirnir fóru að bjóða upp á óverðtryggð húsnæðislán haustið 2015 þá hafa verðtryggðu lánin nær alltaf verið vinsælli hjá sjóðsfélögum þeirra. Breyting varð á því síðla árs í fyrra, nánar tiltekið í nóvember 2018, þegar tekin óverðtryggð lán voru nánast sama upphæð og þau sem voru verðtryggð.
Í desember sama ár gerðist það svo í fyrsta sinn að sjóðsfélagar lífeyrissjóða tóku hærri upphæð óverðtryggða að láni innan mánaðar en verðtryggða. Í þeim mánuði voru rúmlega 60 prósent allra útlána lífeyrissjóða óverðtryggð. Þá hafði verðbólga hækkað nokkuð skarpt á skömmum tíma eftir að hafa verið undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans árum saman. Í júlí 2018 fór hún yfir það markmið í fyrsta sinn í meira en fjögur ár og í desember mældist hún 3,7 prósent.
Minni upphæðir í ár en í fyrra
Í janúar 2019 var verðbólgan enn há, mældist 3,4 prósent, og sjóðsfélagar héldu því áfram að taka frekar óverðtryggð lán en verðtryggð, enda hefur verðbólga bein áhrif á þróun höfuðstóls verðtryggðra lána. Það var þó augljóslega að færast meira öryggi í húsnæðismarkaðinn vegna þess að heildarlántaka fór úr tæplega 9,1 milljarði króna í janúar úr tæplega 5,1 milljarði króna í mánuðinum á undan, og var umtalsvert hærri en í janúar 2018.
Í febrúar 2019 var hærri heildarupphæð tekin að láni hjá lífeyrissjóðum til húsnæðiskaupa en í saman mánuði árið áður en áhuginn á verðtryggðum lánum jókst og fleiri lántakendur tóku slík lán en óverðtryggð. Sú staða hefur haldist síðustu mánuði og viðsnúningurinn náði hámarki í júlí þegar um 69 prósent allra nýrra útlána lífeyrissjóða voru verðtryggð. Í ágúst drógust verðtryggðu lánin hins vegar saman á sama tíma og óverðtryggðu jukust lítillega. Skiptingin í þeim mánuði voru þannig að 62 prósent voru verðtryggð en 38 prósent óverðtryggð.