Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, hefur lagt fram breytingartillögu við frumvarp um breytingu á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki þar sem lagt er til að skatturinn verði lækkaður mun hægar en nú er stefnt að.
Í breytingartillögu Birgis er lagt til að hætt verði við að skatturinn verði frá og með árinu 2021 lækkaður í þrepum niður úr 0,376 prósent í 0,145 prósent og þess í stað verði hann einungis lækkaður einu sinni og þá í 0,318 prósent. Í greinargerð með tillögu Birgis segir ætlunin sé að lækkun skattsins skili sér til neytenda í formi lægri kostnaðar fyrir viðskiptavini fjármálafyrirtækja. Fyrir því sé þó engin trygging, að mati Birgis. „Flutningsmaður þessarar breytingartillögu leggur til að í fyrstu verði aðeins stigið fyrsta skrefið í stað þess að gefa þegar vilyrði um árlega lækkun næstu fjögur árin. Næstu skref verði stigin að fenginni reynslu af fyrsta þrepi lækkunarinnar þegar sannreynt hefur verið að viðskiptavinir fjármálafyrirtækja njóti góðs af henni í formi lægri þjónustugjalda og bættra vaxtakjara.“
Frestuðu fyrsta skrefi lækkunar um eitt ár
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í byrjun september í ríkisstjórn nýtt frumvarp um lækkun á bankaskatti. Samkvæmt því verður hinn sérstaki bankaskattur lækkaður úr 0,376 prósent af heildarskuldum þeirra fjármálafyrirtækja sem greiða hann í 0,145 prósent.
Þegar fjármálaáætlun var breytt í júní var hins vegar ákveðið að fresta lækkun bankaskattsins um eitt ár. Hann mun því ekki byrja að lækka á næsta ári, heldur árið 2021, og vera komin til framkvæmda að öllu leyti árið 2024. Þær breytingar voru gerðar vegna breyttra aðstæðna í íslensku efnahagslífi, aðallega vegna gjaldþrots WOW air og loðnubrests.
Verði frumvarpið óbeytt að lögum má ætla að tekjur hins opinbera lækki um 18 milljarða króna á fjögurra ára tímabili. Í greinargerð sem fylgdi upprunalega frumvarpinu, sem var lagt fram í apríl, sagði að horft væri til þess að lækkunin á bankaskatti myndi skila sér til almennings í gegnum betri kjör hjá fjármálastofnunum.
Telja skattinn rýra samkeppnishæfni
Samtök fjármálafyrirtækja, og æðstu stjórnendur viðskiptabankanna, hafa kvartað mikið undan því á undanförnum árum að bankaskatturinn rýrir samkeppnishæfni þeirra, bæði á innanlandsmarkaði þar sem þeir keppa við lífeyrissjóði um að veita landsmönnum húsnæðislán, en ekki síður í alþjóðlegri samkeppni við erlenda banka sem hafa tryggt sér viðskipta margra stórra íslenskra fyrirtækja sem stunda alþjóðlega starfsemi á undanförnum árum. Þessir aðilar, lífeyrissjóðirnir íslensku og bankar frá hinum Norðurlöndunum, þurfa ekki að greiða bankaskatt og geta því, að sögn íslensku bankanna, boðið mun skaplegri lánakjör.
Í Hvítbók um fjármálakerfið, sem birt var í desember í fyrra, var sérstaklega fjallað um að það gæti verið æskilegt að breyta skattstofni bankaskatts.
Tímaramma breytt vegna samdráttar
Í apríl var svo lagt fram frumvarp þess efnis. Í greinargerð með því frumvarpi var vitnað til þess að í stjórnarsáttmála væri vikið að því að unnið verði að frekari skilvirkni í fjármálakerfinu með það að leiðarljósi að lækka kostnað neytenda. Nú hefur það frumvarp verið uppfært í samræmi við nýja fjármálaáætlun og lækkun á bankaskatti, sem á að lækka tekjur ríkissjóðs um 18 milljarða króna á fjórum árum, mun nú hefjast 2021 en ekki á næsta ári. Það þýðir að lækkunin kemur fyrst til framkvæmda á því ári sem þingkosningar eru næst fyrirhugaðar.
Íslenska ríkið er stærsti eigandi fjármálafyrirtækja á Íslandi, og ræður yfir á bilinu 70 til 80 prósent af þeirri þjónustu sem í boði er. Ríkið á Íslandsbanka að öllu leyti, og ríflega 98 prósent hlut í Landsbankanum, sem jafnframt er stærsti bankinn á markaðnum.