Stjórnvöld ættu að hraða því sem mest að lækka sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki eða afleggja hann. Með þeim hætti gætu stjórnvöld tryggt að bankakerfið gæti stutt betur við heimili og fyrirtæki í hægagangi í hagkerfinu.
Þetta kemur fram í umsögn Ásdísar Kristjánsdóttur, forstöðumanns efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Samkvæmt frumvarpinu lækkar sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki úr 0,376 prósent af skuldum niður 0,145 prósent á fjórum árum.
Stýrivextir Seðlabanka Íslands er nú 3,25 prósent en verðbólta mælist 3 prósent. Vextir á íbúðalánum bankanna eru umtalsvert hærri en hjá lífeyrissjóðum, eins og sjá má á vefnum herborg.is, en algengt er að það muni 1 til 1,5 prósentustigum á vöxtum á lánum. Bankarnir hafa sagt að ein ástæðan sé meðal annars háir skattar sem leggjast á skuldir bankanna, og eru að lokum greiddir af lántakendum sökum þessa.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans í dag, þá fagnar Bankasýslan frumvarpinu, og minnist meðal annars á það í samhengi við fyrirhugaða sölu á eignarhlutum í fjármálakerfinu. Íslenska ríkið á Landsbankann og Íslandsbanka að öllu leyti, og 49 prósent í Sparisjóði Austurlands og heldur Bankasýsla ríkisins á þessum eignarhlutum fyrir hönd ríkissjóðs.
Í umsögn Ásdísar kemur fram lækkun skattsins á fjármálakerfið sé mikilvæg aðgerð í því að örva fjárfestingu í landinu. „Að mati SA er það hagsmunamál fyrir heimili og fyrirtæki í landinu að fjármálaþjónusta sé á sanngjörnum kjörum. Auk þeirra almennu skatta sem lagðir eru á fyrirtæki í landinu greiða fjármálafyrirtækin bankaskatt, almennan fjársýsluskatt af launum og sérstakan fjársýsluskatt af hagnaði. Samanlagt er sérstök skattlagning á fjármálafyrirtækin átta sinnum meiri en þekkist í nágrannaríkjum okkar og munar þar mestu um bankaskattinn. Sérskattar á fjármálafyrirtækin skila árlega ríkissjóði 15 milljörðum króna í skatttekjur þar af eru tekjur af bankaskatti 10 milljarðar króna. Heimili og fyrirtæki greiða bankaskattinn í formi hærri útlánavaxta og lægri innlánsvaxta. Lækkun bankaskattsins myndi því að öðru óbreyttu skila sér í hagstæðari vaxtakjörum, auka ráðstöfunartekjur heimila og styðja við fjárfestingu, nýsköpun og milda þannig áhrif niðursveiflunnar,“ segir í umsögninni.
Í henni segir einnig að skatturinn sé til þess fallinn að skekkja samkeppnisstöðu gagnvart erlendum fjármálafyrirtækjum og innlendum aðilum, eins og lífeyrissjóðum, sem veita sambærilega þjónustu og bankarnir. Þá skipti það miklu máli til framtíðar litið, að fjármálakerfið á Íslandi búi við sambærilegt laga- og regluverk og erlendis. Á meðal samkeppnisaðila séu meðal annars tæknifyrirtæki.