Í gegnum nýútkomna bók sína Crisis and Coloniality at Europe’s Margins: Creating Exotic Iceland fjallar Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, um það hvernig mikilvægur grunnur útrásarinnar hafi verið ótti Íslendinga við að vera flokkaðir á rangan hátt í stigveldi þjóða, sem skjóti svo aftur upp kollinum í hruninu 2008.
„Þrátt fyrir að Íslendingar væru ekki nýlenda Dana í sama skilning eins og nýlenduþjóðir, til dæmis í Afríku, þar sem margþætt ofbeldi einkenndir samskiptin, þá verði samt mikilvægt á Íslandi á ákveðnum tíma að undirstrika aftur og aftur að Íslendingar séu ekki nýlenduþý, að við erum ekki eins og „hinir“ villimennirnir þarna út í heimi,“ segir hún í samtali við Kjarnann.
Þá bendir hún á að McDonald‘s á Íslandi kallist á við þessa hugmynd og notar hún í bókinni opnun og lokun McDonald‘s til að halda utan um ákveðið tímabil. „Þegar Davíð Oddson opnar fyrsta McDonald‘s á Íslandi árið 1993 er hann að feta í fótspor Margrétar Thatcher sem opnaði stækkaðan McDonalds í Bretlandi einhverjum árum fyrr, og það var svo mikið stolt og gleði á Íslandi að við værum loksins að fá McDonald‘s,“ segir hún.
Man sjálf eftir andrúmsloftinu
Kristín man sjálf eftir þessu andrúmslofti. Loksins hafi Íslendingar verið eitthvað, það er hluti af alþjóðarsamfélaginu. „Ég tengi opnunina í bókinni jafnframt við upphaf nýfrjálshyggju og tímabil þeirra breytinga sem þá voru að ganga í garð. Þessi táknræna staða sem McDonald‘s endurspeglar kemur svo aftur í ljós í hruninu þegar staðurinn lokar árið 2009, en margir túlkuðu það sem algjört skipbrot íslensks samfélags. Sumir viðmælendur í rannsókninn töluðu þannig um að það snerist ekki um hamborgana heldur táknræna stöðu Íslands sem þjóð meðal þjóða.“
Fyrir nokkrum árum síðan hafi komið í dagsljósið McDonald‘s hamborgari sem einhver hafði keypt þegar staðurinn var að loka en hann er núna undir glerkúpu fyrir ferðamenn sem heimsækja Ísland, sem aftur endurspegli breytta stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu sem land fjöldaferðamennsku og land sem hafi verið markaðsett á ákveðin hátt.