Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir hagvaxtarhorfur nú svipaðar og voru fyrir fjármálakreppuna 2007 til 2009, í heimsbúskapnum.
Horft er til þess að hagvöxtur í heiminum verði um 3 prósent, og var spá sjóðsins frá því um júlí - um 3,2 prósent hagvöxt á þessu ári - uppfærð niður á við.
„Það er ekkert svigrúm fyrir mistök í stefnunni,“ segir í skýrslunni, og vitnað til þess að 3 prósent markið fyrir hagvöxt í heimsbúskapnum, sem viðkvæm staða. Einstök lönd hafa verið að upplifa erfiðleika, og er Þýskaland þar á meðal. Í fyrra var hagvöxtur í Þýskalandi 1,5 prósent en spá AGS gerir ráð fyrir 0,5 prósent hagvexti.
Brexit og tollastríð
Brexit er einn áhættuþátturinn sem nefndur er, en að óbreyttu mun Bretland ganga úr Evrópusambandinu 31. október án samnings. Reynt er til þrautar að ná samningi, sem eyðir óvissu um fjölmarga þætti sem geta birst í miklum efnahagslegum áhrifum, en það hefur ekki gerst ennþá. „Mistök í stefnu, eins og Brexit án samnings, geta haft mikil neikvæð áhrif,“ segir í skýrslunni, sem vitnað er til í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC.
Þá er einnig minnst á vaxandi erfiðleika vegna tollastríðs Bandaríkjanna og Kína, en það er farið að hafa neikvæð áhrif á hagvöxt víða um heim.
Spá AGS fyrir hagvöxt á næsta ári gerir ráð fyrir 3,4 prósent hagvexti, en staðan sé þó viðkvæm og óvissa fyrir hendi.