Magnús Harðarson hefur verið skipaður nýr forstjóri Nasdaq Iceland, eða Kauphallar Íslands. Magnús mun hefja störf nú þegar. Hann hefur starfað hjá Nasdaq síðan 2002, fyrst sem forstöðumaður viðskiptasviðs og síðar sem forstöðumaður sölu og þjónustu. Hann hefur að auki verið staðgengill forstjóra Nasdaq Iceland frá árinu 2011.
Magnús tekur við starfinu af bróður sínum, Páli Harðarsyni, sem hafði gegnt því frá árinu 2011. Páll var nýverið skipaður fjármálastjóri evrópskra markaða hjá Nasdaq (European Markets).
Í tilkynningu til Kauphallar Íslands er haft eftir, Armintu Saladziene, aðstoðarforstjóra Nasdaq, að fyrirtækið þekki mjög vel til starfa Magnúsar, enda hafi það fengið að njóta krafta hans í framkvæmdastjórn Nasdaq Iceland í mörg ár. „Magnús hefur gríðarlega mikla þekkingu á efnahagslegu umhverfi og reynslu á fjármálamarkaði sem er nauðsynlegt veganesti fram veginn, en hann hefur gegnt stóru hlutverki í uppbyggingu verðbréfamarkaðar á Íslandi. Við erum viss um að þekking hans og hugmyndir um áframhaldandi vöxt markaðarins eigi eftir að verða verðbréfamarkaði og atvinnulífi til góðs og hlökkum til að vinna með honum áfram í nýju starfi.“
Magnús er fæddur árið 1966. Áður en hann hóf störf hjá Nasdaq Iceland, þá Kauphöll Íslands, var hann hagfræðingur hjá Þjóðhagsstofnun í þrjú ár og þar áður starfaði hann sem efnahagslegur ráðgjafi. Hann hefur Ph.D. gráðu í hagfræði frá Yale University.
Magnús hefur gegnt starfi forstjóra frá 1. október síðastliðnum, þegar bróðir hans Páll hóf störf sem fjármálastjóri evrópskra markaða hjá Nasdaq (European Markets). Páll mun einning sitja í framkvæmdastjórn European Markets undir stjórn Björn Sibbern. Undir European Markets heyra allir markaðir Nasdaq í Evrópu og á Norðurlöndunum.