Leka- og rakavandamál eru mun algengari hér á landi en í öðrum löndum innan Evrópusambandsins. Hlutfall þeirra sem telja sig búa við slíkan vanda hér á landi er 19 prósent sem er þrefalt hærra hlutfall en í Noregi. Þetta kemur fram í skýrslu Íslandsbanka um íbúðamarkaðinn.
Plássleysi ekki mikið vandamál
Mikil umræða hefur verið um heilsuspillandi áhrif rakaskemmda hér á landi á síðustu árum. Í nýrri skýrslu Íslandsbanka kemur fram að hlutfall þeirra sem búa við leka- og/eða rakavandamál hér á landi er ansi hátt eða alls um fimmtungur landsmanna. Það er rúmlega þrisvar sinnum fleiri en í Noregi en að meðaltali telja 13 prósent íbúa sig búa við þennan vanda innan Evrópusambandsins.
Erfitt er að segja til um orsakir þessa en samkvæmt Íslandsbanka hlýtur athyglin að beinast meðal annars að veðráttu, viðhaldi og gæðum húsbygginga hér á landi almennt.
Aftur á móti virðist plássleysi ekki vera umfangsmikið vandamál hérlendis í alþjóðlegu samhengi, samkvæmt skýrslu Íslandsbanka. Alls telja um 7 prósent Íslendinga sig búa við plássleysi.
Það er svipað hlutfall og í Noregi og Finnlandi en nokkuð lægra en í Danmörku þar sem 9 prósent telja sig búa við plássleysi og um helmingi lægra en í Svíþjóð. Þá nemur hlutfallið að meðaltali 15 prósentum hjá aðildarríkjum ESB .